Eins og staða mála er nú hjá skráðum félögum, á aðallista kauphallar Íslands, nemur markaðsvirði þeirra 770,3 milljörðum króna og eigið fé (mismunur eigna og skulda) þeirra er 432,8 milljarðar króna.
Virði félaganna - samanlagt - nemur því 1,7 sinnum eigið fé.
Mestur munur á markaðsvirði og eigin fé er hjá Nýherja (Origo) en þar er markaðsvirðið 12,1 milljarður, eða sem nemur rúmlega fjórföldu eigin fé, sem er 2,7 milljarðar.
Sé litið til þessa mælikvarða er staða félaganna mismunandi, ekki síst eftir geirum. Tryggingarfélögin eru með svipaða stöðu, það er að markaðsvirði þeirra er 1,6 til 1,7 sinnum eigið féð.
Markaðsvirði VÍS er 25,4 milljarðar (eigið fé 16,1), markaðsvirði TM 22,5 milljarðar (eigið fé 13) og markaðsvirði Sjóvá 23,7 milljarðar (eigið fé 14,8).
Mikill munu er á fjarskiptafélögunum, en markaðsvirði Vodafone nemur nú tæplega 20 milljörðum, en hjá Símanum er virðið 37,7 milljarðar. Í tilfelli Vodafone er virðið 2,5 sinnum eigið féð, sem nemur 7,7 milljörðum. Hjá Símanum er eigið féð svipað og markaðsvirðið, eða 35,9 milljarðar.
Fasteignafélögin, Eik, Reitir og Reginn, eru svipuð á þennan mælikvarða, með verðmiða sem nemur 1,2 til 1,3 sinnum eigið fé. Markaðsvirði Eik er 34,9 milljarðar (eigið fé 27,8 milljarðar), virði Reita er 61,3 milljarðar (eigið fé 47,8 milljarðar) og virði Regins er 39,9 milljarðar (eigið fé 33,7 milljarðar).
Eitt félag á markaðnum er langsamlega verðmætast, Marel. Virði þess nemur 230 milljörðum króna eða um 30 prósent af öllum markaðsvirðinu.
Markaðsvirði þess er 3,4 sinnum eigið fé, sem nemur 67 milljörðum í dag.