Á árunum 2012 til 2018 hafa orðið til 29.300 ný störf á Íslandi á einstöku uppgangstímabili í hagkerfinu, þar sem mikill vöxtur í ferðaþjónustu hefur verið helsti vaxtarbroddurinn.
Sérfræðingar Vinnumálastofnunar, sem rætt er við í Morgunblaðinu í dag, spá því að áframhald verði á mikilli fjölgun starfa og er gert ráð fyrir því að 2.500 til 3.000 ný störf geti bæst við á þessu ári.
Sérfræðingur Vinnumálstofnunar, sem Morgunblaðið ræðir við, telur að þetta sé Íslandsmet, það er að störfum hafi fjölgað svona mikið á jafn skömmum tíma.
Samkvæmt Vinnumálastofnun bendir fátt til þess að það sé að hægja á fjölgun starfa, heldur þvert á móti muni mikill uppgangur einkenna stöðuna á vinnumarkaði á næstunni.
Nýjustu tölur um atvinnuleysi benda til mikillar spennu í hagkerfinu en atvinnuleysi mældist 1,7 prósent í nóvember samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands.
Hagvaxtarspár gera ráð fyrir áframhaldandi hagvexti upp á 3 til 4 prósent.