Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur ákveðið í samráði við Vegagerðina að auka vetrarþjónustu og hálkuvarnir á ákveðnum köflum á þjóðvegakerfinu í því skyni að bæta umferðaröryggi.
Þetta kemur fram í frétt Vegagerðarinna.
Í fréttinni segir að ráðherra og vegamálastjóri hafi að undanförnu kannað með hvaða hætti og hvar helst þarf að bæta þjónustuna og að Vegagerðin hafi áætlað kostnað við þessa auknu þjónustu.
Kostnaður við aukna vetrarþjónustu með fleiri mokstursdögum og auka þjónustu nemur um 100 milljónum króna. Breytingarnar munu komast í framkvæmd eins hratt og unnt er með þeim tækjum og búnaði sem er til staðar.
Sigurður Ingi segir að brýnt sé að bæta vetrarþjónustu víða um land vegna aukinnar umferðar bæði vegna atvinnusóknar milli byggðarlaga og aukinna umsvifa ferðaþjónustu sem bjóði í síauknum mæli uppá ferðir víða um land árið um kring.
„Með þessu eykst öryggi á þjóðvegunum enda nauðsynlegt bregðast við auknum umferðarþunga og tryggja sem mest öruggar samgöngur allt árið. Reglur um snjómokstur hafa ekki verið endurskoðaðar í nokkur misseri og þörfin var orðin brýn. Við tryggjum meira fé til þjónustunnar í þágu aukins öryggis en um leið vil ég minna á að við þurfum alltaf að aka eftir aðstæðum og huga að hinum íslenska vetri,“ segir ráðherra.
Suður- og Suðausturland
Á Hringveginum verður þjónusta á kaflanum milli Víkur og Jökulsárlóns færð upp um þjónustuflokk. Felst aukin þjónusta bæði í aukinni viðveru og meiri hálkuvörnum. Suðurstrandarvegur er færður upp um flokk og fær 5 daga þjónustu í stað tveggja daga áður.
Þá verður þjónusta aukin á nokkrum ferðamannavegum á Suðurlandi þar sem umferð hefur aukist mjög, svo sem á Dyrahólavegi og við Skógafoss. Einnig verður þjónusta aukin á nokkrum stöðum í uppsveitum á Suðurlandi, m.a. á Skeiðavegi, Landvegi, Búrfellsvegi og víðar.
Vesturland
Þjónusta á milli Borgarness og Vegamóta á Snæfellsnesi færð upp um þjónustuflokk sem og á milli Borgarness og Hvanneyrar. Eins verður fjölgað moksturdögum úr tveimur í fimm daga og aukin þjónusta á leiðinni upp í Húsafell (á Hálsasveitarvegi). Þá verður þjónusta á Útnesvegi aukin en umferð um hann er meiri en á veginum yfir Fróðárheiði þar sem þjónusta hefur verið meiri. Á þessum köflum hefur umferð aukist mjög síðustu misseri annars vegar vegna ferðamanna og hins vegar atvinnusóknar.
Vestfirðir og Norðurland
Á Vestfjörðum verður þjónusta aukin í nágrenni Bíldudals og í Skutulsfirði og á Norðurlandi á Svarfaðardalsvegi, í Eyjafirði og á nokkrum stöðum á Norðausturlandi.