Í desember flutti Icelandair 235 þúsund farþega og voru þeir 7 prósent fleiri en í desember árið 2016. Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair til kauphallar, ein framboðsaukningin á milli ára var um 10 prósent og sætanýting versnaði lítið eitt. Var 76,5 prósent í desember í fyrra, en 77,2 prósent í desember 2016.
Sé litið yfir árið í heild, þá fjölgaði farþegum Icelandair um 10 prósent og voru þeir alls um fjórar milljónir. Sætanýtingin batnaði og var 82,5 prósent, en var 82,2 prósent árið á undan.
Farþegar Air Iceland Connect, í innlandsflugi, voru 23 þúsund og fjölgaði um þrettán prósent á milli ára. Air Iceland Connect jók framboðið um átján prósent og sætanýting nam var 58,7 prósent, að því er segir í tilkynningunni.
Þrátt fyrir að árið 2017 hafi að flestu leyti verið betra ár fyrir Icelandair en árið 2016, þegar litið er til helstu talna úr fluginu og nýtingu þess, þá féll markaðsvirði félagsins um meira en 30 prósent á árinu. Það er nú 71,6 milljarður króna.