Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur staðfest að það hafi framselt eignir sem metnar eru á 19 milljarða króna, og eru hluti af stöðugleikaframlagi föllnu bankanna, til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR).
Kjarninn greindi frá því 3. janúar síðastliðinn að heimild hafi verið fyrir framsalinu í fjáraukalögum 2017, sem afgreidd voru á síðast starfsdegi Alþingis fyrir áramót. Um er að ræða eignir sem Lindarhvoll ehf. hefur haft til umsýslu og ekki teljast heppilegar til sölu á almennum markaði. Framsal eignanna lækkar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs við B-deild LSR um áðurgreinda upphæð.
Í frétt á heimasíðu ráðuneytisins sem birt var í dag, segir að það hafi þótt skynsamlegt að þessum sökum að LSR myndi yfirtaka eignirnar. Sjóðurinn sé ekki háður sérstökum tímatakmörkunum í eignaumsýslu sinni líkt og Lindarhvoll og hann búi yfir sérhæfðri þekkingu til að hámarka virði eignanna.
Við þessa ráðstöfun mun framlag til til sjóðsins hækka úr fimm milljörðum króna í 24 milljarða króna á yfirstandandi ári. Þessi greiðsla er þó fjarri því nægjanleg til að B-deildin geti staðið við skuldbindingar sínar, en ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs eru 611 milljarðar króna.
Til að sameinaður sjóður geti staðið við þær þyrftu árleg framlög ríkissjóðs til sjóðsins að vera sjö milljarðar króna á ári að jafnaði næstu 30 árin í stað þeirra fimm milljarða króna sem nú er ráðstafað til þeirra á ári.