Samtök erlendra fréttamanna í Hollywood (Hollywood Foreign Press Association) veitti í gær tveimur samtökum sem stuðla að framgangi rannsóknarblaðamennsku styrki upp á eina milljón dali, um 104 milljónir króna, hvort. Samtökin eru alþjóðleg samtök rannsóknarblaðamanna (ICIJ) og nefnd um vernd blaðamanna (CPJ). Tilkynnt var um styrkveitinguna á Golden Globe hátiðinni í gærkvöldi, en samtök erlendra fréttamanna í Hollywood standa að henni.
ICIJ hefur borið ábyrgð á vinnslu rannsóknarblaðamanna á fréttum úr stórum gagnalekum á undanförnum árum. Við þá vinnu hafa samtökin leitt saman blaðamenn víðs vegar að úr heiminum. Þekktustu gagnalekarnir eru annars vegar Panamaskjölin og hins vegar Paradísarskjölin, þar sem upplýsingar um fjármuni fjölmargra einstaklinga í skattaskjólum var að finna, m.a. Íslendinga. Eitt af markmiðum ICIJ er að stuðla að sameiginlegri ábyrgð fjölmiðlamanna um allan og verja hvern annan í vinnu sinni við að afhjúpa sannleikann.
Aldrei jafn mikilvægt og nú, að styðja við rannsóknarblaðamennsku
Gerard Ryle, forstjóri ICIJ segir í yfirlýsingu að aldrei hafi verið jafn mikilvægt og nú, að afhjúpa sannleikann með því að styðja við rannsóknarblaðamennsku. Hann sé einstaklega þakklátur fyrir stuðninginn og það mikilvæga starf sem CPJ, sem einnig fékk styrk, gegnir við að standa vörð um rannsóknarblaðamennsku.
Í tilkynningunni segir einnig að sannleikurinn eigi undir högg að sækja, og að staðreyndin sé sú að á síðustu árum hafa fjölmiðlamenn hvað eftir annað hætt lífi sínu við að reyna að uppljóstra sannleikanum. Með því að standa saman geti þau náð árangri sem enginn gæti náð einn og sér.
Umfang upplýsinga um Íslendinga var heldur lítið í Paradísarskjölunum, ólíkt því sem var í Panamaskjölunum.
Eins og kunnugt er var fjöldinn allur af Íslendingum í Panamaskjölunum. Á meðal þeirra sem voru þar til umfjöllunar var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra, sem sagði af sér eftir að kom í ljós að hann og kona hans, Anna Sigurlaug Pálsdóttir, áttu aflandsfélagið Wintris sem í voru eignir upp á annan milljarð króna. Auk þess kom í ljós að Wintris var kröfuhafi í bú föllnu íslensku bankanna og hafði ekki greitt skatta hérlendis í samræmi við lög og reglur. Þar var einnig fjallað um Bjarna Benediktsson, þáverandi - og núverandi fjármálaráðherra, en hann átti hlut í aflandsfélagi sem skráð var á Seychelles-Eyjum. Auk þess var að finna í gögnunum mikið magn upplýsinga um Íslendinga sem eru fyrirferðamiklir í viðskiptalífinu.