Dómsmálaráðherra hefur óskað eftir umsögnum um drög að frumvarpi til breytingu á skaðabótalögnum. Á grundvelli þeirra laga eru fjárhæðir bóta fyrir líkamstjón ákveðnar, og skipta því ákvæði laganna miklu máli fyrir fjölmarga einstaklinga sem verða fyrir líkamstjóni á hverju ári.
Skaðabótalögin hafa að meginatriðum staðið óbreytt í tæp 20 ár en helstu breytingar eru á ákvæðum um lágmarks- og hámarkstekjur sem miðað er við til að ákveða bótafjárhæðir, vísitölutengingar fjárhæða og frádrátt vegna lífeyrissjóðsgreiðslna, auk breytinga á svokölluðum marfeldisstuðli sem notaður er til að uppreikna áætlaðar tekjur þess sem verður fyrir tjóni.
Í greinargerð frumvarpsins segir meðal annars að ljóst sé að frá því lögin voru upphaflega sett hafi orðið ýmsar breytingar á forsendum tiltekinna ákvæða. Umtalsverð skerðing hafi orðið á lágmarkslaunum sem lögin mæla fyrir um í samanburði við laun á vinnumarkaði, auk þess sem hámarkslaun laganna hafa farið lækkandi í samanburði við launaþróun.
Markmið laganna er að bregðast við þeirri þróun og laga ákvæði laganna að núverandi aðstæðum. Slíkt sé nauðsynlegt enda feli núverandi mynd laganna í sér að bætur fyrir líkamstjón eru ekki lengur í samræmi við það sem lagt var upp með. Til dæmis var fjárhæð lágmarksárslauna laganna ákveðin sem 85 prósent af þáverandi meðallaunum landverkafólks en nemur í dag ekki nema rúmum helmingi af meðallaunum verkafólks. Þá hafa sífellt fleiri tjónþolar þurft að sæta hámarksárslaunum laganna, með tilheyrandi skerðingu bóta, vegna meiri hækkunar launa á vinnumarkaði en hámark laganna.
Frumvarpið vann Eiríkur Jónsson prófessor en að verkinu kom jafnframt ráðgjafahópur skipaður fulltrúum frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Lögmannafélagi Íslands, Sjálfbjörgu, Öryrkjabandalaginu og Sjúkratryggingum Íslands. Frestur til að skila athugasemdum við frumvarpið er til 26. janúar.