Hildur Sverrisdóttir, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi þingmaður og borgarfulltrúi hans, hefur verið ráðin aðstoðarmaður Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Hildur verður annar aðstoðarmaður hennar en áður var Ólafur Teitur Guðnason í aðstoðarmannateymi ráðherrans. Hildur mun hefja störf í lok mánaðar.
Hildur er fædd árið 1978. Hún er með meistarapróf í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og lögmannsréttindi. Hún hefur meðal annars starfað sem lögfræðingur hjá fjölmiðlafyrirtækinu 365 og sem framkvæmdastjóri V-dags gegn kynferðisbrotum. Hildur skrifaði um árabil bakþanka í Fréttablaðið og ritstýrði jafnframt bókinni Fantasíur.
Alls eru ellefu ráðherrar í ríkisstjórn Íslands. Hver og einn þeirra má vera með tvo aðstoðarmenn auk þess sem heimild er til staðar samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar að ráða þrjá til viðbótar ef þörf krefur.
Aðstoðarmenn ráðherra fengu duglega launahækkun sumarið 2016, þegar laun skrifstofustjóra í ráðuneytum voru hækkuð um allt að 35 prósent. Laun aðstoðarmanna miðast við laun skrifstofustjóranna. Eftir þá hækkun eru laun aðstoðarmanna um 1,2 milljónir króna á mánuði. Aðstoðarmenn ráðherra eru með Hildi 16 talsins, að meðtöldum upplýsinga fulltrúa ríkisstjórnarinnar. Enn er svigrúm til að ráða allt að níu aðstoðarmenn til viðbótar.