Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ákveðið að bjóða sig fram í leiðtogakjör hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir næstkomandi borgarstjórnarkosningar í Reykjavík í vor.
Þetta kemur fram í frétt RÚV.
Vilhjálmur var alþingismaður fyrir Suðvesturkjördæmi frá 2013 til 2017. Vilhjálmur starfaði einnig við kennslu frá 1989 til 2013, meðal annars í Iðnskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands við viðskiptafræðideild. Þá starfaði hann einnig hjá Útvegsbanka Íslands, meðal annars sem útibússtjóri bankans í Vestmannaeyjum árin 1980 til 1987.
Í gær lýsti Eyþór Arnalds, athafnamaður og fyrrverandi oddviti sjálfstæðismanna í Árborg, því yfir á Facebook síðu sinni að hann gæfi kost á sér til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í borgarstjórnarkosningunum í vor.
Áður höfðu borgarfulltrúarnir Kjartan Magnússon og Áslaug Friðriksdóttir tilkynnt um að þau sækist eftir leiðtogahlutverki í Reykjavík.
Kjarninn greindi frá því í gær að Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, hafi fengið margar áskoranir um að bjóða sig fram í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Framboðsfrestur rennur út í dag klukkan 16:00.