Ráðherrar ríkisstjórnarinnar, Reykjavíkurborg og KSÍ hafa skrifað undir yfirlýsingu um skipun starfshóps um uppbyggingu Laugardalsvallar.
Hópurinn skal gera tillögu um hvers konar leikvangur yrði hagstæðastur í Laugardal af þeim kostum sem skoðaðir hafa verið, fjármögnun og kostnaðarskiptingu út frá þeirri hugmynd sem verður fyrir valinu, eignarhald, mögulega aðkomu ríkis, borgar og KSÍ að verkinu sem og tilhögun frmakvæmda og tímaáætlun. Skal hópurinn skila tillögum sínum fyrir 1. apríl á þessu ári.
Starfshópinn skipa Benedikt Árnason, skrifstofustjóri, forsætisráðuneyti, formaður, Anna Sigríður Arnardóttir, lögfræðingur, fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðuneytis, Óskar Þór Ármannsson, sérfræðingur, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Hrólfur Jónsson, skrifstofustjóri Eigna- og atvinnuþróunar, Reykjavíkurborg, Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri Umhverfis- og skipulagssviðs, Reykjavíkurborg, Ómar Einarsson, sviðsstjóri Íþrótta- og tómstundasviðs, Reykjavíkurborg, Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, Guðrún Inga Sívertsen, varaformaður Knattpyrnusambands Íslands, Borghildur Sigurðardóttir, stjórnarmaður Knattspyrnusambands Íslands. Ráðgjafi starfshópsins er Pétur Marteinssonar, framkvæmdastjóri Borgarbrags.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Guðni Bergsson, formaður KSÍ, undirrituðu yfirlýsinguna.