Tiltölulega fáir eiga nær allt eigið fé einstaklinga í íslenskum fyrirtækjum, samkvæmt samantekt Creditinfo fyrir ViðskiptaMoggann, sem fjallað er um í blaði dagsins.
Um þúsund manns eiga ríflega 98 prósent alls eigin fjár sem er í eigu einstaklinga. Hluturinn sem tilheyrir einstaklingum, samkvæmt samantekt Creditinfo, nemur um 1.200 milljörðum króna.
„Ennfremur sést þegar rýnt er í tölurnar að tíu eignamestu einstaklingar landsins eiga tæplega þriðjung alls eigin fjár í íslenskum félögum, sem er í höndum einstaklinga,“ segir í umfjöllun ViðskiptaMoggans.
Misskipting auðs hefur aukist
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um skiptingu gæða í íslensku samfélagi á undanförnum árum. Í október greindi hann frá því að þær rúmlega 20 þúsund fjölskyldur sem tilheyra þeim tíu prósentum þjóðarinnar sem eiga mest eigið fé – eignir þegar skuldir hafa verið dregnar frá – áttu 2.062 milljarða króna í hreinni eign í lok árs 2016. Alls átti þessi hópur 62 prósent af öllu eigin fé í landinu á þeim tíma. Eigið fé hans jókst um 185 milljarða króna á árinu 2016. Eigið fé hinna 90 prósent landsmanna jókst á sama tíma um 209 milljarða króna. Það þýðir að tæplega helmingur þeirrar hreinu eignar sem varð til á árinu 2016 fór til tíu prósent efnamestu framteljendanna.
Þegar eigið fé 20 prósent efnamestu fjölskyldna þjóðarinnar var skoðað kom í ljós að sá hópur átti 85 prósent af öllu eigið fé í landinu. Sá helmingur þjóðarinnar sem átti minnst var samanlagt með neikvætt eigið fé upp á 175,3 milljarða króna.