Meira en tífalda má raforkuöryggi á Vestfjörðum með því að setja hluta Vesturlínu og fleiri línur á sunnanverðum Vestfjörðum í jörð. Hinsvegar geri virkjun Hvalár ekkert til að bæta raforkuöryggið þar.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landvernd í síðustu viku. Þetta er meðal niðurstaðna ráðgjafarfyrirtækis á sviði raforkumála sem Landvernd fékk til þess að leita leiða til þess að styrkja raforkuflutningskerfið á Vestfjörðum og bæta raforkuöryggi.
Stjórn Landverndar óskaði í október síðastliðnum eftir úttekt á möguleikum á að bæta úr ástandinu hjá kanadísku ráðgjafarfyrirtæki á sviði raforkuflutnings, METSCO Energy Solutions. Niðurstöður hennar eru að með því að leggja samtals fimm 66 og 132 kílóvolta línur í jörð má bæta raforkuöryggi Vestfirðinga meira en tífalt.
Úrbóta þörf
Mikil umræða hefur verið vegna bágs raföryggis á Vestfjörðum og ljóst þykir að úrbóta er þörf. Svokölluð Vesturlína samanstendur af Geiradalslínu 1, Mjólkárlínu 1 og Glerárskógarlínu 1 og liggur frá Hrútafirði til Mjólkárvirkjunar. Línan er rekin á 132 kílóvolta spennu. Um hana fer allur raforkuflutningur til Vestfjarða.
Truflanir á línunni hafa verið þónokkrar á undanförnum árum. Minni línur liggja á firðina, það er 66 og 33 kílóvolta línur og iðulega hafa verið truflanir vegna þeirra líka.
Tálknafjarðarlína og Breiðadalslína eru 66 kílovolta loftlínur og frá Breiðadal er 66 kílóvolta lína til Bolungarvíkur og Ísafjarðar og síðan 66 kílóvolta jarðstrengur milli Ísafjarðar og Bolungavíkur. Þrjár 33 kílóvolta loftlínur tengja síðan Mjólká við Breiðadal með tengingu til Hrafnseyrar og Þingeyrar. Sömuleiðis eru 33 kílovolta línur frá Geiradal til Hólmavíkur og frá Keldeyri til Bíldudals.
Virkjun Hvalár styrkir ekki raföryggi
Samkvæmt Landvernd hefur því verið haldið fram í umræðu um 55 MW Hvalárvirkjun að hún muni bæta raforkuöryggi svæðisins. Á Ströndum liggi annað kerfi raforkudreifingar og sé raforkuöryggi þar ekki talið vandamál. Ekki hafi verið vísað til þess í umræðu um virkjun Hvalár.
Skýrsla kanadíska ráðgjafarfyrirtækisins tekur af öll tvímæli um það að virkjun Hvalár og sú tenging hennar við flutningskerfi sem hefur verið í umræðunni, styrkir sem slík ekki raforkuöryggi Vestfirðinga. Auknu raforkuöryggi má hinsvegar koma á með því að leggja áðurnefndar loftlínur í jörð. Myndi raforkuöryggi Vestfirðinga aukast meira en tífalt eins og áður segir og fram kemur í skýrslunni að framkvæmdatími slíkra jarðstrengja sé almennt ekki meira en 1-2 ár og heildartími með leyfisveitingum 2-3 ár. Fjárfesting í jarðstrengjum skilar sér mun fyrr en þegar um loftlínur er að ræða, sem tekur oft 8-10 ár að leggja, með leyfisveitingaferli.
Tillaga skýrsluhöfunda er að endurnýja Mjólkárlínu (MJ1) með jarðstreng og sömuleiðis fjórar 66 kílóvolta línur; Tálknafjarðarlínu 1 (TA1), Bolungarvíkurlínu 1 (BV1), Breiðadalslínu 1 (BD1) og Ísafjarðarlínu 1 (IF1). Um væri að ræða um 194 km leið samtals. Við þetta er raforkuöryggi talið batna tífalt. Benda má á að svokölluð hringtengin raforku um Vestfirði, sem mikið er nefnd í tengslum við Hvalárvirkjun, mundi kalla á sambærilega styrkingu þess hluta raforkukerfisins sem hér ræðir, auk kostnaðarsamrar og erfiðrar tengingar virkjunarinnar við Ísafjörð og nærsveitir. Þá eru jákvæð áhrif jarðstrengja miðað við loftlínur á landslag og ásýnd byggða ótvíræð.
Landsnet á öðru máli
Í frétt Landsnets frá því fyrir helgi segir að þegar metnar eru tengileiðir milli staða á Vestfjörðum sé kostnaður vegna jarðstrengja sambærilegur við loftlínur og því mikilvægt að horft sé til kosta jarðstrengja. Tæknilegar hindranir komi þó í veg fyrir að hægt sé að leggja allar línur í jörð.
Ólíkur styrkur kerfisins milli landsvæða sé meginástæða þess að svigrúm til jarðstrengslagna er mismunandi. Þar sem kerfið er sterkt sé meira rými til þess heldur en þar sem styrkurinn er lítill.
Jafnframt segir í fréttinni að þau hjá Landsneti hafi lengi talað fyrir uppbyggingu og styrkingu flutningskerfisins og fagni allri umræðu um bætt afhendingaröryggi og uppbyggingu á kerfinu.
„Hjá Landsneti hefur verið unnið að styrkingu á flutningskerfinu á Vestfjörðum undanfarin ár, til dæmis með byggingu varaaflsstöðvar í Bolungarvík og lagningu jarðstrengs í Bolungarvíkurgöng,“ segir í fréttinni. Að auki sé unnið að undirbúningi hringtengingar á milli norður – og suðurfjarðanna, meðal annars með sæstreng yfir Arnarfjörð og lagningu á jarðstreng í gegnum Dýrafjarðargöng. Í hringtengingunni leggi þau áherslu á að nota jarðstrengi eins mikið og kostur er vegna aðstæðna.
Skýrslan takmörkuð
Á Vestfjörðum er kerfið hvað veikast á landinu. Vesturlínan er um 160 km, frá Hrútatungu að Mjólká og áætlað er að hægt sé að leggja um 15 til 20 kílómetra af henni í jörðu. Fyrir nokkrum árum var lagður 12 km langur jarðstrengur í Bolungarvíkurgöng. Við rekstur á jarðstrengnum hefur reynt á þolmörk kerfisins og því hefur Landsnet góðar upplýsingar um styrk kerfisins á svæðinu.
Skýrslan sem Metsco gerði fyrir Landvernd fjallar ekkert um þessa takmörkun á lengd jarðstrengja heldur gerir ráð fyrir að hægt sé að leggja jarðstrengi á alla Vestfirði sem er óraunhæft. Staðreyndin er að einungis er hægt að leggja hluta kerfisins í jörð og því fullyrðingar um að hægt sé að tífalda afhendingaröryggi á Vestfjörðum með jarðstrengjum villandi.
Öll umræða um styrkingu á kerfinu er af hinu góða en mikilvægt er að hún byggist á réttum forsendum og hvetjum við hjá Landsneti stjórnvöld til að gera sjálfstæða úttekt á niðurstöðum skýrslunnar.
Ætlað að skapa umræður
Skýrslunni er fyrst og fremst ætlað að skapa umræður um möguleika á að styrkja raforkuöryggi á Vestfjörðum til dæmis með því að leggja jarðstrengi. Þetta kom fram á svari sitjandi formanns Landverndar Lovísu Ásbjörnsdóttur við fyrirspurn Kjarnans vegna málsins.
Samkvæmt henni setur ráðgjafafyrirtækið METSCO fram módel þar sem raforkukerfi Vestfjarða er lagt í jörðu og segir hún að þeir hafi farið mjög varleg í allar fullyrðingar og bent á að margt þurfi að kanna betur í sambandi við lagningu jarðstrengja. Þeir loki ekki á þann möguleika að hafa bæði loftlínur og jarðstrengi.
Lovísa segir að höfundar skýrslunnar bendi jafnframt á ýmsar áskoranir sem þurfi að leysa við lagningu jarðstrengja á Vestfjörðum. „Það er því rangt hjá Landsneti að METSCO geri ráð fyrir því að hægt sé að leggja jarðstrengi á alla Vestfirði. Það sætir raunar furðu að ríkisfyrirtæki, sem hefur einokun á raforkuflutningi á landinu, skuli leyfa sér að rangtúlka skýrsluna með þessum hætti í stað þess að taka jákvætt í umræðuna um fleirri lausnir í að bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum. Þá kemur einnig fram í skýrslunni að virkjun í Hvalá kemur ekki til með að leysa þennan vanda,“ segir hún.
Mikil þróun í gerð jarðstrengja
Lovísa bendir enn fremur á að mikil þróun hafi verið í gerð jarðstrengja á síðustu árum, kostnaður hafi farið lækkandi og í dag séu jarðstrengir raunhæfur kostur í samanburði við loftlínur. Mesti kostnaðurinn við jarðstrengi liggi í jarðvegsvinnu en ekki sé hægt að fullyrða að íslensk jarðlög séu erfiðari viðfangs við lagningu jarðstrengja heldur en á mörgum öðrum stöðum erlendis. „Þess má geta að við vinnslu skýrslunnar óskaði ráðgjafafyrirtækið Metsco eftir nákvæmum berggrunns- og jarðgrunnskortum sem ekki eru til fyrir Vestfirði.“
Hún segir að margar þjóðir séu í dag farnar að endurnýja sitt raforkukerfi og leggja jarðstrengi. Í skýrslunni sé fjallað um stefnu Dana í að styrkja raforkukerfi sitt til framtíðar og hafi þeir til dæmis valið að setja allar 132kV og 150 kV raflínur í jörðu. Á Íslandi sé engin slík stefna til. „Á komandi árum stöndum við frammi fyrir þörfum úrbótum bæði á raforku- og samgöngukerfi landsins. Því má beina því til stjórnvalda hvort ekki megi skoða þetta í heild og að samhliða úrbótum á vegakerfinu verði hugað að lagningu jarðstrengja.
Vissulega þarf að kanna ýmislegt betur í sambandi við lagningu jarðstrengja á Vestfjörðum, en þótt að einungis væri farið í að leggja jarðstrengi á erfiðum svæðum þar sem bilanatíðni loftlína er há þá myndi það strax bæta raforkukerfið á Vestfjörðum,“ segir hún að lokum.