Þingmaður Demókrata, Richard Durbin, segir að Donald Trump hafi ítrekað notað orð sem fólu í sér kynþáttahyggju (rasisma) þegar hann ræddi um málefni innflytjenda á fundi á skrifstofu forsetans í gær.
Durbin sagði að Trump hefði ítrekað látið „rasísk“ ummæli falla og kallað tilteknar þjóðir, eins og Haíti, ríki í Suður-Ameríku og Afríku, „skítaholur“. Durbin sat fundinn sjálfur og staðfestir með því fréttir Washington Post, þar sem greint var frá ummælum forsetans.
Rupert Colville, talsmaður mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, segir ummæli Trumps vera „sjokkerandi“ og óhjákvæmilegt sé annað en að líta á þau sem kynþáttahyggju af verstu sort.
„Það er ekki hægt að dæma heilu þjóðirnar sem „skítaholur“,“ sagði Colville. Hann sagði Trump hafa gerst sekan um það áður, að draga fólk í dilka eftir trú og kynþætti, og nefndi sérstaklega fólk frá Mexíkó og múslima. Hann sagði talsmáta eins og þennan ólíðandi og hann færi gróflega gegn gildum Sameinuðu þjóðanna, þegar kæmi að mannréttindum.
Sadly, Democrats want to stop paying our troops and government workers in order to give a sweetheart deal, not a fair deal, for DACA. Take care of our Military, and our Country, FIRST!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) January 12, 2018
Hvíta húsið hefur ekki dregið ummæli Trump til baka, en ítrekað hefur verið í yfirlýsingu að Trump vilji einblína á hagsmuni Bandaríkjanna og að innflytjendastefnan taki mið að því að fólkið sem komi til landsins leggi mikið til bandarísks samfélags, að því er segir í umfjöllun New York Times. Hefur hann gefið sér þrjá mánuði til ná fram miklum breytingum á lögum um landamæraeftirlit í Bandaríkjunum, með það að markmiði að verna bandaríska hagsmuni.