Á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2017 gaf Vinnumálastofnun út um 1.660 atvinnuleyfi. Helmingur þeirra útlendinga sem hafði fengið atvinnuleyfi á árinu 2017 er yngri en 30 ára. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans sem birt var í morgun, en í henni er áhersla lögð á að skoða vinnumarkaðinn.
Þar segir að um 1.150 erlendir ríkisborgarar hafi verið atvinnulausir í lok nóvember, eða 28 prósent allra atvinnulausra á landinu. Það samsvarar um 4,6 prósent atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara, samkvæmt Hagsjá Landsbankans. Vert er að taka fram að atvinnuleysi á Íslandi er heilt yfir mjög lágt, eða 1,7 prósent í nóvember síðastliðnum. Sé litið á tólf mánaða meðaltal mælist það 2,8 prósent.
Í Hagsjánni kemur fram að samkvæmt Vinnumálastofnun voru 55 erlend fyrirtæki starfandi hér á landi í nóvember 2017 og var fjöldi starfsmanna á þeirra vegum tæplega 500. Starfsmenn starfsmannaleiga voru um 1.900 í nóvember á vegum 30 starfsmannaleiga og virðist þeim starfsmönnum fara fækkandi.
Útlendingum mun halda áfram að fjölga hratt
Gert er ráð fyrir því að aðfluttir íbúar til Íslands verði 23.385 fleiri en brottfluttir á tímabilinu 2017-2021, samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar sem birt var í október. Aðfluttir eru fyrst og fremst erlendir ríkisborgarar. Um síðustu áramót voru erlendir ríkisborgarar 30.380 hérlendis. Þeim mun því fjölga um 77 prósent á örfáum árum ef gengið er út frá því að allir aðfluttir umfram brottflutta séu erlendir ríkisborga.
Ástæða þess að útlendingum hérlendis fjölgar svona mikið er auðvitað efnahagsuppsveiflan. Á Íslandi verða til mörg þúsund störf á ári í tengslum við ferðaþjónustu, byggingavinnu og aðra afleidda þjónustu. Flest störfin eru láglaunastörf og ekki er til vinnuafl hérlendis til að anna eftirspurn eftir starfsfólki. Þess vegna flykkist erlent vinnuafl hingað til að vinna þessi störf.