Björgvin Ingi Ólafsson, framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Íslandsbanka, er hættur störfum hjá bankanum. Þetta tilkynnti hann í stöðufærslu á Facebook í dag. Björgvin var ráðinn til bankans í september 2014.
Í stöðuuppfærslunni segir Björgvin að þegar hann hafi komið inn í framkvæmdastjórn Íslandsbanka hafi Birna Einarsdóttir, bankastjóri bankans, að hann yrði afl til breytinga. „Ég held ég hafi algjörlega verið breytingaaflið sem vonast var eftir. Ég hef verið vakinn og sofinn yfir því að búa til betri banka. Ekkert var auðvelt, flest skemmtilegt.
Við höfum brallað margt gott í bankanum; allt frá því að "drepa" Valdimar í auglýsingaherferð fyrir maraþonið (sem vann stærstu auglýsingaverðlaun ársins hérna heima það árið), flytja höfuðstöðvarnar eða tækla margvísleg stefnumarkandi verkefni.
Ég er sérlega stoltur af skipulagsbreytingunum sem ég vann að í vor með úrvalshópi. Þar gjörbreyttum við skipulagi bankans og gerðum hann miklu betur fallinn til að takast á við tækifæri og áskoranir framtíðar.
Ég skil stoltur við betri banka en ég kom inn í. Ég er glaður að hafa tekið þátt í þessu og hlakka til að takast á við nýja og spennandi hluti á frábæru ári 2018. Meira um það síðar.“
Björgvin Ingi kom til Íslandsbanka frá Meniga þar sem hann var fjármálastjóri um tíma en þar áður starfaði hann um tveggja ára skeið hjá ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey & Company. Björgvin Ingi hafði áður starfað hjá Íslandsbanka frá 2000-2005. Hann er með MBA gráðu frá Kellogg School of Management og B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands.