Sjávarútvegsráðuneytið hefur framlengt frest til að skila inn tillögum um nýtt listaverk á Sjávarútvegshúsið. Skilafresturinn er nú til 1. febrúar.
Áður prýddi stærðarinnar mynd af sjómanni austurvegg hússins, við Skúlagötu 4, en málað var yfir vegginn sem er nú skjannahvítur síðsumars 2017.
Þórir Hrafnsson upplýsingafulltrúi atvinnuvegaráðuneytisins segir í samtali við Kjarnann að töluvert af umsóknum hafi borist, en ráðuneytið vilji fá fleiri. Síðan verkefnið var kynnt hafi farið fram þingkosningar og jólahátíð og því ekki ólíklegt að það hafi farið fyrir ofan garð og neðan hjá einhverjum. Hann segir engan vegg í Norður Evrópu hafa fengið aðra eins umfjöllun. „Þetta er stóra tækifærið fyrir listamann sem vill láta verkið sitt sjást,“ segir Þórir.
Málverkið var sett á húsið haustið 2015 á vegum Iceland Airwaves-tónlistarhátíðarinnar og Urban National Berlin, þar sem nokkrir listamenn fengu frelsi til sköpunar á hinum ýmsu byggingum borgarinnar. Hópurinn Evoca1 málaði sjómanninn.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þáverandi sjávarútvegsráðherra efndi til samkeppni um nýja mynd á vegginn en samkvæmt tilkynningu frá ráðuneytinu skal verkefnið hafa skírskotun í sögu sjávarútvegs á Íslandi. Höfundum er frjálst að velja þá efnisútfærslu sem þeir telja henta hugmynd sinni best, en verkið skal hafa endingu í að minnsta kosti þrjú ár. Mikilvægt er að verkið taki tillit til umhverfisins, falli vel að svæðinu og þoli íslenska veðráttu.
Ráðuneytið mun standa straum af kostnaði við gerð og uppfærslu verksins að hámarki 2 milljónir króna. Auk þess er verðlaunafé 250 þúsund krónur sem er óháð fjárhagsramma verkefnisins.