Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook, segir í stöðuuppfærslu á Facebook síðu sinni að stefnt sé að því að minnka vægi frétta- og efnisveita í fréttastraumi notenda, en á sama tíma að auka vægi þeirra fjölmiðla sem teljast áreiðanlegir.
Stefnt er að því að útfæra það nánar, hvernig notendur munu geta metið áreiðanleika fjölmiðla, og gefið þeim vægi eftir trúverðugleika frétta. Þetta verður meðal annars gert í gegnum kannanakerfi Facebook, að því er segir í stöðuuppfærslu Facebook.
Markaðsvirði Facebook nemur nú 527 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur 53 þúsund milljörðum króna.
Með þessu móti á að draga úr vægi myndbanda og ýmissa skilaboða frá Facebook-síðum, en þó á breytingin ekki að vera meiri en svo í fyrstu að hlutfall fréttatengds efnis fari niður í fjögur prósent af heildarumferð en núna er það rúmlega 5 prósent.
Innri breytingin, það er samsetning þess efnis sem notendur munu deila, er þó talin geta falið í sér mikla breytingu fyrir umferð á fréttasíður.
Zuckerberg hefur áður gefið það út, að hann vilji að fréttastraumurinn verði meira fyrir efni frá vinum og fjölskyldumeðlimum notenda, heldur en nú er, og vill með því reyna að stuðla að meiri gæðaumræðu á Facebook heldur en raunin hefur verið. „Samskiptamiðlar gera fólki mögulegt að dreifa upplýsingum hraðar og ef við tökumst ekki á við þessi vandamál munum við óhjákvæmilega magna þau upp. Þess vegna er það mikilvægt að fréttaveitan lyfti gæðafréttum sem stuðla að sameiginlegum grunni,“ segir Zuckerberg.