Greiðslustöðvun United Silicon rennur út á morgun og blasir gjaldþrot við félaginu. Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun, sem send var fjölmiðlum í kvöld, kemur fram að stofnunin fallist á úrbótaáætlun fyrirtækisins með skilyrðum. „Með bréfi í byrjun september sl. stöðvaði Umhverfisstofnun starfsemi fyrirtækisins. Þá höfðu lyktarvandamál ítrekað komið upp, íbúum til ama. Fordæmalaus fjöldi frávika frá starfsleyfi hafði jafnframt orðið í níu mánaða rekstrarsögu fyrirtækisins. Sameinað silíkon sendi Umhverfisstofnun úrbótaáætlun með bréfi 14. desember 2017 og 16 janúar 2018. Með svarbréfi Umhverfisstofnunar sem sent var fyrirtækinu 19. janúar sl. setur Umhverfisstofnun fram sem skilyrði fyrir samþykkt úrbótaáætlunar. Skorsteini verði bætt á verksmiðjuna í þágu íbúa til að minnka lyktarmengun. Stofnunin fellst ekki á þá ósk forsvarsmanna Sameinaðs silíkons að fresta þeirri aðgerð fram yfir endurræsingu,“ segir í tilkynningunni.
Fyrirtækinu er samkvæmt bréfi til þess, sem sent var 19. janúar, gert að vinna að fleiri úrbótum. Umbætur hafa þó átt sér stað og telur Umhverfisstofnun m.a. að nýtt og betra reykhreinsivirki fyrir afsog frá aftöppun og steypingu í ofnhúsi sé til bóta.
Í alvarlegrar fjárhagsstöðu verkefnisins er útlit fyrir að það fari í gjaldþrot, en Arion banki er stærsti hluthafi þess og kröfuhafi, ásamt íslenskum lífeyrissjóðum. Aðrir kröfuhafar eru meðal annars verktakar og birgjar.
Nú þegar hefur Arion banki afskrifað tæplega 5 milljarða vegna verkefnisins, en heildarskuldbindingar, sem útlit er fyrir að komist í uppnám í gjaldþroti, nema um 10 milljörðum.
Arion banki hefur haldið starfseminni gangandi á greiðslustöðvunartíma, og nemur kostnaður bankans vegna þess nálægt einum milljarði króna. Það eru meðal annars launagreiðslur fyrir þá tugi starfsmanna sem eru að vinna hjá verksmiðjunni, og annar kostnaður sem hefur þurft að greiða.
Nokkrir hafa sýnt því áhuga að kaupa verksmiðjuna, og reka hana síðan áfram, en gera má ráð fyrir að það ferli fari nú fram í gegnum gjaldþrotaferlið, þar sem kaupendur munu sýna því áhuga að koma að því, með samskiptum við skiptastjóra, og reka verksmiðjuna síðan með nýju eignarhaldi. Óvissa er þó um þessi atriði, og mun framtíð verkefnisins ekki skýrast endanlega í nánustu framtíð.