Stjórnarandstaðan spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra ítrekað út í stöðu Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra á fyrsta fundi Alþingis sem haldinn var í dag. Eini dagskrárliður fundarins var um stöðuna í stjórnmálum og verkefnin framundan.
Í andsvari við ræðu Katrínar, sem opnaði fundinn þegar hún fór yfir stöðuna á breiðum grundvelli, spurði Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar hvað forsætisráðherra ætlaði að gera til að koma í veg fyrir algjört vantraust á ríkisstjórn sína vegna afstöðu sinnar til lögbrots dómsmálaráðherra.
Katrín vísaði í starfshópinn sem hún hefur skipað um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu sem ætlað er að fara yfir siðareglur framkvæmdavaldsins, ríkisstjórnar og stjórnsýslunnar, setja þeim siðareglur og reglur um hagsmunaskráningu og að full ástæða sé til að fara yfir þessar reglur og hvernig framkvæmd þeirra hefur hingað til verið háttað.
Helga Vala svaraði því til að það væri gott að skipa starfshópa en vandinn blasi þó við. Forsætisráðherra verði að stíga inn í og segja að hér hafi orðið algjört trúnaðarrof, farið hafi verið yfir trúnaðarmörk og skortur sé á trausti. Bregðast verið við þeim vanda sem blasi við í íslensku dómskerfi, í íslensku réttarkerfi og nefnd siðfræðinga og annarra mætra einstaklinga verði að sýna almenningi að lög beri að virða.
Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata tók í sama streng og Helga Vala. Hann spurði ráðherra hvort hún ætlaði á einhverjum tímapunkti, nú þegar ný gögn hafi komið fram, endurskoða afstöðu sína um hvort dómsmálaráðherra geti setið áfram í embætti.
Gunnar Bragi Sveinsson þingmaður Miðflokksins bætti um betur og spurði hvort ráðherrar væru hafnir yfir lög, hvort þeir þurfi ekki að fara að lögum landsins. Ef að dómur falli á ráðherra hvort hann eigi ekki að axla ábyrgð með einhverjum hætti og ef ekki þá af hverju ekki. Eigi hann að axla ábyrgð hvernig sú ábyrgð sé.
Katrín sagðist hafa svarað þessum spurningum áður. Ráðherrar hafi áður fengið á sig dóma, til dæmis fyrir brot á jafnréttislögum, skipulagslögum og svo mætti áfram telja. Stjórnvöldum beri að fara yfir ferlið, það lagaumhverfi sem skapað hafi verið og þær reglur sem hugsanlega þurfi að setja. „Ég tel ekki endilega að dómur fyrir brot á lögum leiði til afsagnar ráðherra,“ sagði Katrín að lokum.