Ef dómsmálaráðherra ákveður að tilnefna aðra í dómaraembætti en dómnefnd um hæfi umsækjenda hefur mælt með þá liggur öll ábyrgð hjá ráðherranum varðandi ákvörðunina. Ef hann ætlar að gera slíkar breytingar þá verður að rökstyðja hverjir séu hæfastir enda er verið að ganga gegn lögbundinni nefnd sem á að meta hæfi og er þegar búin að skila áliti sínu. Við slíkar aðstæður vakna upp spurningar um rannsóknarskyldu og andmælarétt og ljóst að fylgja þarf ákvæðum stjórnsýslulaga.
Sigríður lagði samt sem áður fram bréfið og lagði til að fjórir dómarar sem dómnefndin hafði talið á meðal 15 hæfustu yrðu ekki skipaðir, en fjórir aðrir sem dómnefndin taldi ekki á meðal þeirra hæfustu, yrðu skipaðir í þeirra stað.
Tveir þeirra, Jóhannes Rúnar Jóhannsson og Ástráður Haraldsson, sem fjarlægðir voru af listanum höfðuðu mál gegn íslenska ríkinu vegna þessa og í desember komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Sigríður hafi brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga með athæfi sínu. Hinir tveir mennirnir sem dómnefnd hafði talið á meðal 15 hæfustu, Eiríkur Jónsson og Jón Höskuldsson, hafa báðir krafist miskabóta og viðurkenningu á bótaskyldu ríkisins vegna ólögmæts athæfis dómsmálaráðherra.
Birta gögn um samskipti þriggja ráðuneyta
Á meðal þeirra gagna sem birt eru í Stundinni í dag er tölvupóstur frá Helga Valberg Jenssyni, lögfræðingi og þá sérfræðingi hjá kjara- og mannauðssýslu fjármálaráðuneytisins, til tveggja lögfræðinga hjá annars vegar forsætisráðuneytinu og hins vegar dómsmálaráðuneytinu. Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, fékk líka tölvupóstinn, sem er dagsettur 16. maí. Þar segir m.a. að öll ábyrgðin á ákvörðun um að breyta frá lista dómnefndar sé hjá dómsmálaráðherra og að ef hún ætli að leggja málið fyrir þingið eins og það líti út á þessum tíma þá þurfi að fara fram mat. „Ef ráðherra ætlar að leggja þetta breytt fyrir þingið, þá þarf ráðherra að leggja sjálfstætt mat á alla umsækjendur, út frá þeim sjónarmiðum sem hún leggur til grundvallar.“
Síðasta gagnið sem er birt í Stundinni er síðan tölvupóstur frá Helga Valberg til lögfræðings innan forsætisráðuneytisins og ráðuneytisstjóra þess ráðuneytis, sem þá var undir stjórn Bjarna Benediktssonar.
Þar er enn og aftur varað við því að ef Sigríður ætlaði að leggja til önnur nöfn en dómnefndin þá myndu vakna upp „spurningar um rannsóknarskýrslu og andmælarétt. Ákvörðun ráðherra að skipa dómara og síðan að leggja til mögulega ný nöfn við Alþingi er stjórnvaldsákvörðun og því þarf að fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga. Ef menn eru í vafa hvort umrædd ákvörðun sé stjórnvaldsákvörðun, þá ættum við að fara með ákvörðunina sem slíka.“