Arion banki, sem er stærsti hluthafi og kröfuhafi United Silicon í Helguvík, mun óska eftir því við skiptastjóra þrotabús United Silicon að ganga að veðum sínum í eignum fyrirtækisins, koma þeim eignum í söluferli og freista þess að koma kísilverksmiðjunni aftur í gang.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Eins og kunnugt er fór United Silicon í gjaldþrot í gær. Geir Gestsson hrl. hefur verið skipaður skiptastjóri.
United Silicon er fyrsta kísilmálmverksmiðjan sem hefur verið gangsett á Íslandi. Ragnheiður Elín Árnadóttir, þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, setti ljósbogaofn verksmiðjunnar af stað 13. nóvember 2016. Fljótlega fór að bera á mikilli óánægju hjá íbúum í Reykjanesbæ með mengun frá verksmiðjunni.
Margir fundu fyrir töluverðum líkamlegum einkennum vegna þessa, og voru meðal annars haldnir fundir þar sem fólk deildi sögum sínum og kvartaði undan menguninni.
Í apríl í fyrra tilkynnti Umhverfisstofnun forsvarsmönnum United Silicon að ekki yrði hjá því komist að loka verksmiðjunni vegna mengunar sem frá henni streymdi. Í kjölfarið voru veittir frestir en starfsemin var endanlega stöðvuð 1. september 2017 og framleiðsla hefur legið niðri síðan.
Áður höfðu helstu lánveitendur UnitedSilicon, Arion banki og nokkrir íslenskir lífeyrissjóðir, tekið yfir United Silicon. Félagið óskaði eftir greiðslustöðvun í ágúst 2017 og bar fyrir sig erfiðleika í rekstri sem rekja mætti til síendurtekinna bilana í búnaði sem valdið höfðu félaginu miklu tjóni.
Þá féll gerðardómur í deilu United Silicon við ÍAV hf., sem hafði tekið þátt í að reisa verksmiðjuna, í fyrrasumar. Samkvæmt honum átti United Silicon að greiða ÍAV um einn milljarð króna, sem félagið átti ekki til.
Hluthafar og kröfuhafar félagsins hafa þurft að afskrifa stórar upphæðir vegna United Silicon það sem af er þessu ári. Arion banki hefur til að mynda þegar afskrifað 4,8 milljarða króna vegna verkefnisins.
Bankinn hefur að mestu tekið yfir hlutafé en útistandandi skuldbindingar nema ennþá 5,4 milljörðum, samkvæmt síðasta birta uppgjöri bankans. Arion banki hefur auk þess ábyrgst reksturinn á greiðslustöðvunartímanum en hann hefur borgað um 200 milljónir króna á mánuði vegna hans, frá því greiðslustöðvunartíminn hófst í ágúst.
Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem fjárfesti 1.178 milljónum króna í United Silicon, hefur færð niður virði þeirra hlutabréfa og skuldabréfa sem sjóðurinn á í fyrirtækinu um 90 prósent. Um varúðarniðurfærslu er að ræða, og nemur hún rúmum milljarði króna. Sömu sögu er að segja af Eftirlaunasjóði félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA). Þar nemur niðurfærslan einnig 90 prósentum. Lífeyrissjóð starfsmanna Búnaðarbanka Íslands (LSBÍ) fjárfestir einnig í verkefninu. Arion banki rekur alla sjóðina þrjá, starfsfólk bankans gegnir stjórnunarstöðum í þeim og þeir eru til húsa í höfuðstöðvum hans í Borgartúni.
Þá setti lífeyrissjóðurinn Festa 875 milljónir króna í United Silicon. Hann hefur einnig framkvæmt varúðarniðurfærslu vegna verkefnisins.