Fríblaðið Mannlíf kom inn um bréfalúgur íbúa höfuðborgarsvæðisins í fjórða sinn í morgun. Blaðinu er dreift frítt í 80 þúsund eintökum. Um er að ræða samstarfsverkefni útgáfufélagsins Birtings og Kjarnans miðla.
Í Mannlífi er lagt mikið upp úr gæðum efnis úr mörgum áttum. Ritstjórn Kjarnans sér um vinnslu frétta, fréttaskýringa, úttekta, skoðanagreina og fréttatengdra viðtala á meðan að ritstjórnir Gestgjafans, Hús og híbýla og Vikunnar vinna áhugavert og skemmtilegt efni inn í aftari hluta blaðsins.
Efnistök eru því afar fjölbreytt. Í Mannlífi er að finna lífstílstengt efni um heimili, hönnun, ferðalög, mat og drykk í bland við vandaðar fréttaskýringar og viðtöl við áhugavert fólk.
Á meðal efnistaka í blaði dagsins er ítarlegt viðtal Magnúsar Halldórssonar við Sigga skyr. Einhver ótrúlegasta frumkvöðlasaga Íslendings í seinni tíð er sagan af Siggi’s Skyr og hvernig varan varð til á löngum tíma með dugnaði, klókindum og hugviti. Sigurður Kjartan Hilmarsson er stofnandinn og forstjórinn, og heldur en um þræðina í fyrirtækinu að baki Siggi’s Skyr.
Einnig má finna fréttaskýringar um baráttuna um borgina, fangelsismál, erfiðar aðstæður fólks sem missir maka sína og snúna stöðu fólks sem er rangfeðrað. Þá skrifar Eiríkur Ragnarsson um hvernig kvikmyndaáhugi almennings er gerólíkur akademíunnar í Hollywood.
Viðtalið við Sigga skyr mun jafnframt birtast um helgina á vef Kjarnans.