Björn Teitsson, sagnfræðingur og formaður Samtaka um bíllausan lífsstíl, sækist eftir þriðja sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar - græns framboð í forvali flokksins.
Í framboðsyfirlýsingu segist Björn vilja flugvöllinn burt úr Vatnsmýrinni sem allra fyrst. „Það er einfaldlega búið að sóa nógum miklum tíma og fé nú þegar. Þetta er okkar verðmætasta byggingarland sem kemur til með að gjörbreyta borgarlandslaginu, allri þjóðinni til framdráttar.“
Þá vill hann banna bílaumferð við Laugaveg með því að opna fyrir fólk, frá Barónsstíg. Það þurfi að gerast strax. „Það er ólíðandi að bílar séu enn að taka 47 prósent af borgargötu þar sem er ekki lengur pláss fyrir fólk á gangstéttum og þar sem foreldrar ganga um með börn í barnavögnum í algerlega tilgangslausri loftmengun. Flest verslunarfólk áttar sig á því, og hefur gert það fyrir löngu síðan, að það er mun líklegra að fólk gangi inn í verslun ef það er fótgangandi. Það er að minnsta kosti enginn ökumaður að aka inn í verslun og versla þannig. En þá er gott að benda á Aktu taktu, nú, eða Skalla,“ segir Björn
Hann segist að sjálfsögðu styðja Borgarlínu og á sama tíma frekari fjárfestingu í þjónustu Strætisvagnakerfisins. Þar sé mikið verk að vinna, sérstaklega í sýnileika kerfisins fyrir ferðafólk, sem veit hreinlega ekki af tilvist strætó og búi þar með til óþarfa umferð um mengun í bílaleigubílum.
Björn er 36 ára Reykvíkingur og er með nokkrar háskólagráður, í sagnfræði, þýsku, frönsku og alþjóðasamskiptum. Hann hefur starfað sem grunnskólakennari, sem blaðamaður og fréttamaður, sem spurningahöfundur fyrir Gettu betur og sem upplýsingafulltrúi hjá mannúðarfélagi.