Líf Magneudóttur, oddviti Vinstri grænna í Reykjavík, spyr hvort að almenningur ætti ekki að kaupa hlut Eyþórs Arnalds, nýs leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í borginni, í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Í kjölfarið væri hægt að reka blaðið að hluta sem „samfélagsblað.“
Eyþór á 22,87 prósent hlut í Árvakri. Hlutinn eignaðist hann á síðasta ári.
Eyþór, sem er stjórnarmaður í alls 26 eignarhaldsfélögum og fyrirtækjum, sagði við RÚV í gær að hann sé þegar byrjaður að slíta á hagsmunatengsl í ljósi nýrrar stöðu sinnar. Þar sagði hann einnig að hann ætlaði sér að hafa „algjöran aðskilnað á því sem að ekki passar.“
Eyþór sagði einnig við Morgunblaðið að hann myndi fara úr stjórn Árvakurs og „slíta á þau tengsl“. Hann muni selja hlutinn ef kaupandi finnst í tæka tíð.
Líf, sem sækist eftir því að leiða áfram fyrir Vinstri græn í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum, setti stöðuuppfærslu á Facebook í gærkvöldi þar sem hún spurði hvort að almenningur ætti ekki að eignast hlut Eyþórs í Árvakri og reka það að hluta sem „samfélagsblað“. „Nú er bæði tækifæri til að losa Arnalds fljótt undan hagsmunatengslum sínum eftir að hann varð oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík og eignast hlut í sögufrægum fjölmiðli ef nægilegt fjármagn safnast fljótt. Þetta væri einhvers konar lýðræðisverkefni líka...Á ég að stofna söfnun á Karolina?,“ spurði Líf. Þar á hún við hvort að setja eigi af stað hópfjármögnun á síðunni Karolina Fund.
Hvernig væri ef almenningur eignaðist 20% hlut Eyþórs Arnalds í Morgunblaðinu og það yrði rekið að hluta til sem samfé...
Posted by Líf Magneudóttir on Sunday, January 28, 2018
Kom inn sem eigandi í fyrra
Eigandi Árvakurs er félagið Þórsmörk. Það félag hefur að mestu verið í eigu aðila sem tengjast stærstu stoðum íslensks sjávarútvegs. Í lok árs 2016 áttu slíkir aðilar um 96 prósent hlut í Þórsmörk.
Í apríl var tilkynnt að Eyþór Arnalds hefði keypt 26,6 prósent hlut í Árvakri. Um væri að ræða allan hlut Sjávarútvegsrisans Samherja, hlut Síldarvinnslunnar og Vísis hf.
Upplýsingar um eignarhald Árvakurs voru uppfærðar á heimasíðu Fjölmiðlanefndar í byrjun júlí í fyrra. Þær upplýsingar endurspegluðu eignarhaldið eftir að 200 milljóna króna hlutafjáraukning hefði átt sér stað. Fjölmiðlar greindu frá því að Kaupfélag Skagfirðinga hefði lagt til mest af þeim peningum sem lagðir voru til viðbótar í félagið og við það minnkaði hlutur Ramses II, félags í eigu Eyþórs Arnalds og er nú 22,87 prósent. Kaupfélag Skagfirðinga á nú 14,15 prósent í Þórsmörk í gegnum félagið Íslenskar sjávarafurðir.
Það er ekki einsdæmi að þátttakendur í stjórnmálum eigi hlut í fjölmiðli. Smári McCharthy, þingmaður Pírata, átti um tíma lítinn hlut í Stundinni og Ágúst Ólafur Ágústsson, sem var kjörinn þingmaður Samfylkingarinnar í október 2017, á 5,69 prósent hlut í Kjarnanum. Ágúst Ólafur sagði sig samstundis úr stjórn miðilsins þegar ljóst var að hann hygði á stjórnmálaþátttöku og er óvirkur eigandi. Hlutur hans er í söluferli.