Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fékk drög að skýrslu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins afhent síðastliðinn föstudag. Hannesi var falið að stýra rannsóknarverkefni um efni skýrslunnar í júlí 2014. Áætlaður kostnaður verkefnisins var tíu milljónir króna og áætluð verklok voru í byrjun september 2015.
Þau verklok frestuðust ítrekað. Til stóð að kynna skýrsluna 8. október 2017, rúmum tveimur árum eftir áætluð verklok, en af því varð ekki. Þá stóð til að kynna skýrsluna 20. nóvember 2017 en því var einnig frestað. Í pistli sem Hannes skrifaði á vefinn Pressuna sagðist hann ætla að fresta skilum til að „gefa þeim, sem minnst er á í henni, kost á að skýra mál sitt, leiðrétta og gera athugasemdir.“ Kynningin átti þá að fara fram 16. janúar 2018.
Af því varð heldur ekki.
Ekki hægt að svara hvenær skýrslan verður birt
Þótt Hannes stýri verkinu þá er samningurinn sem gerður var um gerð þess milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Félagsvísindastofnunar. Í svari við fyrirspurn Kjarnans um afdrif skýrslu um verkefnið segir Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður stofnunarinnar, að hún hafi fengið drög að skýrslu til yfirlestrar síðastliðinn föstudag. Það væri hins vegar ekki hægt að svara því á þessu stigi hvenær skýrslan verði gerð opinber.
Komið hefur fram að skýrslan sé 315 blaðsíður að lengd og að hún sé á ensku.
Hannes hefur þó að hluta til fjallað um innihald hennar á opinberum vettvangi á undanförnum árum. Hann skrifaði grein í Morgunblaðið 21. apríl 2015 þar sem hann opinberaði í fyrsta sinn hluta af því sem hann er að skrifa um í skýrslu sinni. Í greininn fjallaði hann í löngu máli um söluna á FIH-bankanum, sem tekin var sem veð fyrir neyðarláni Seðlabanka Íslands til Kaupþings 6. október, þegar Davíð Oddsson stýrði enn Seðlabankanum.
Þá skrifaði hann grein í Morgunblaðið í tilefni af sjötugsafmæli Davíðs Oddssonar, ritstjóra blaðsins, þann 17. janúar 2018. Greinin birtist einnig á vefnum Pressunni. Í henni fjallar Hannes einnig um mál sem tengjast erlendum áhrifaþáttum bankahrunsins.
Seðlabankinn er líka að gera skýrslu
Már Guðmundsson seðlabankastjóri greindi frá því í febrúar 2015 að hann ætlaði að láta taka saman skýrslu um tildrög þess að Kaupþing fékk neyðarlán upp á 500 milljónir evra frá bankanum 6. október 2008, sama dag og neyðarlög voru sett og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, bað guð að blessa Ísland í sjónvarpsávarpi.
Sumarið 2017 greindi Kjarninn frá því að Seðlabankinn hefði ákveðið að bæta söluferli FIH bankans – en sá danski banki var tekinn sem veð fyrir láninu – við skýrsluna. „Sá hluti er mjög umfangsmikill og snertir m.a. þróun efnahags- og bankamála í Danmörku. Vegna mikilla anna starfsmanna við önnur verk hefur verið erfiðleikum bundið að tryggja næga krafta í þetta verk – en það er sem sagt langt á veg komið,“ sagði í svari bankans við fyrirspurn Kjarnans.
Til stóð að birta umrædda skýrslu í fyrrahaust, á svipuðum tíma og skýrsla Hannesar um sambærilegt efni átti að vera kynnt. Þeirri birtingu var þó frestað fram í janúar. Þegar Kjarninn spurðist fyrir um afdrif skýrslunnar um miðjan janúar sagði í svari bankans að ekkert væri nánar hægt að segja um tímasetningu á birtingu hennar.