Samkvæmt rannsókn Andra Hauksteins Oddssonar og Halldóru Bjargar Rafnsdóttur, glímir rúmur þriðjungur háskólanema á Íslandi við þunglyndi og tæplega 20 prósent við kvíða.
Niðurstöðurnar eru í takt við rannsóknir víða erlendis frá, en svo virðist sem kvíði og þunglyndi sé umfangsmikið vaxandi vandamál meðal ungmenna og háskólanema.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Háskólinn í Reykjavík býður nú nemendum sínum upp á sálfræðiþjónustu innan veggja háskólans, en þjónustan er veitt af sálfræðisviði HR í samstarfi við náms- og starfsráðgjöf. Tilkynnt var um þetta í gær, og fagnaði Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, því sérstaklega að skólinn ætli nú að bjóða upp á þessa þjónustu. „Háskólinn í Reykjavík veitir nemendum sínum ekki aðeins góða menntun, heldur er lögð áhersla á að nemendur okkar vaxi og dafni sem einstaklingar á meðan þeir eru hér í námi,“ segir Ari Kristinn Jónsson, í tilkynningu á vef HR.
Í þjónustunni felst sálfræðiviðtal og sex vikna hópmeðferð við þunglyndi og kvíða, fyrir þá nemendur sem þess óska. Þessa vikuna stendur HR fyrir Geð- heilbrigðisviku þar sem boðið er upp á fræðslu í hádeginu um ýmis viðfangsefni, svo sem svefn og samfélagsmiðlanotkun.