Sigurður Gísli Björnsson, stofnandi og eigandi útflutningsfyrirtækisins Sæmark ehf. er grunaður um skattalagabrot. Vegna þess keyptu meðeigendur hans í öðru sjávarútvegsfyrirtæki, Bacco Seaproducts, hlut hans. Í fréttatilkynningu frá meðeigendunum, Hjalta Halldórssyni og Bjartmari Péturssyni, segir að ákvörðunin um að kaupa Sigurð Gísla út sé tekin til að „vernda framtíðarhagsmuni félagsins og viðskiptasambönd þess. Sigurður Gísli sé nú ekki á nokkurn hátt tengdur Bacco Seaproducts.“
Í tilkynningunni er einnig greint frá því að allt lykilstarfsfólk Sæmarks hafi sagt upp störfum á mánudag og að einhverjir þeirra hafi leitað til Bacco eftir störfum. Ekkert þeirra sé grunað um að hafa haft nokkra aðkomu að meintum brotum Sigurðar Gísla. „Ákveðið hafi verið að bjóða starfsfólkinu störf hjá Bacco Seaproducts enda búi það yfir þekkingu og reynslu sem sé mikilvæg íslenskum sjávarútvegi. Hagsmunir framleiðanda, starfsfólks og viðskiptavina hafi verið hafðir að leiðarljósi við ákvörðunina,“ segir í tilkynningunni.
Sæmark er stórt fiskútflutningsfyrirtæki. Bacco Seaproducts er sömuleiðis umsvifamikill fiskútflytjandi sem selur vörur undir vörumerkinu Icefish- Frozen Seafood. Bæði fyrirtækin velta milljörðum króna árlega.
Meint hundruð milljóna undanskot
Fréttablaðið greindi frá því 18. janúar að skattrannsóknarstjóri hafi gert húsleit gjá Sigurði Gísla. Auk þess hafi eignir hans verið kyrrsettar og bankareikningar frystir. Hin meintu skattsvik hans eru talin hlaupa á hundruð milljóna króna.
Upplýsingar um aflandsfélag í eigu Sigurðar Gísla komu fram í Panamaskjölunum sem opinberuð voru á vormánuðum 2016. Félag hans heitir Freezing Point Corp og var stofnað í Panama árið 2009. Rannsókn skattrannsóknarstjóra hófst í kjölfarið. Grunur er um að Sigurður Gísli hafi gerst sekur um skattsvik í gegnum fleiri en eitt félag.
Sigurður Gísli er líka einn eigenda fjárfestingarfélagsins Óskabeins sem er meðal annars stór hluthafi í tryggingafélaginu VÍS og Kortaþjónustunni.
Fjallað var um málið á sjávarútvegsvefnum Undercurrent News í gær. Þar segir að fulltrúar skattrannsóknarstjóra hafi leitað á skrifstofum Sæmarks í síðustu viku, nánar tiltekið 26. janúar.