Lífeyrissjóður verslunarmanna neitar að upplýsa um hversu mikið af fé sjóðfélaga hefur farið í skulda- og hlutabréf tengd Bakkavör, og hvernig það fjármagn hefur ávaxtast.
Í svari við fyrirspurn Kjarnans segir að sjóðurinn muni ekki upplýsa um þetta, en að meðaltalsheildarávöxtun sé vel viðunandi. „Lífeyrissjóðurinn upplýsir ekki um mál af þessu tagi, þ.e. ítarlegar upplýsingar um uppgjör einstakra eigna eða verðbréfaviðskipta varðandi tiltekin fyrirtæki eða stofnanir. Langtímafjárfestir eins og lífeyrissjóðir leitast við að hámarka arðsemi af hverri eign, en í hlutarins eðli liggur að langtímafjárfestir er viðbúinn því að áföll geti orðið varðandi einstakar fjárfestingar. Til lengri tíma litið er það meðaltalið sem skiptir máli. Hvað lífeyrissjóð verzlunarmanna varðar hefur afkoman undanfarin 20 ár verið 4,4% raunávöxtun á ári að meðaltali sem þýðir að sjóðurinn hefur gert betur en að ná ávöxtunarmarkmiðum,“ segir í svari Þórhalls Jósepssonar, upplýsingafulltrúa sjóðsins.
Íslenskir lífeyrissjóðir hafa í gegnum árin tapað miklum fjárhæðum á viðskiptum í félögum tengdum Bakkavararbræðrum, Ágústi og Lýði Guðmundssyni. Þeir stóðu að lokum uppi sem sigurvegarar, eftir nokkuð hörð átök um eignarhald félagsins.
Í úttekt sem gerð var á starfsemi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins og kynnt var í apríl 2012 kom fram að sjóðirnir hefðu tapað samtals 170,9 milljörðum króna á hlutabréfum og skuldabréfum sem útgefin voru af Existu og tengdum aðilum. Hlutdeild þessara aðila, sem voru aðallega Kaupþing, Exista og Bakkavör, í heildartapi lífeyrissjóðanna vegna slíkra bréfa var 44 prósent.
Vegna stöðu Bakkavarar eftir hrunið var gerður nauðasamningur milli Bakkavarar Group og kröfuhafa þess félags í byrjun árs 2010.
Í honum fólst að kröfuhafar, að mestu leyti Arion banki og skuldabréfaeigendur á borð við lífeyrissjóðina, tóku yfir félagið en bræðrunum var gefið tækifæri til að greiða kröfuhöfunum til baka fyrir mitt ár 2014. Gengi það eftir myndu bræðurnir fá 25 prósenta eignarhlut í Bakkavör.
Í upphafi árs 2012 var orðið augljóst að forsendur nauðasamninganna myndu ekki halda. Á þeim tíma gekk rekstur Bakkavarar erfiðlega og samþykkt var að breyta kröfum í hlutafé. Til að fá bræðurna til að samþykkja þá aðgerð, sem ella hefðu getað haldið Bakkavör í herkví fram á sumarið 2014, var fallist á að leyfa þeim að kaupa fjórðungshlut í félaginu.
Fjórðungshlutinn fengu bræðurnir að kaupa á fjóra milljarða króna. Innra virði Bakkavarar miðað við eiginfjárstöðu samstæðunnar var um 20 milljarðar króna og því ljóst að bræðurnir voru að greiða minna en eina krónu fyrir hverja nafnvirðiskrónu.
Næstu misseri juku þeir við hluti sína í Bakkavör, meðal annars með því að flytja fé frá aflandsfélögum til Íslands í gegnum fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands og kaupa hlutafé af íslenskum aðilum.
Þá kom í ljós, með afhjúpun Panamaskjalanna, að bræður áttu miklar eignir í aflandsfélögum, eins og rakið var í umfjöllun Kjarnans um félög þeirra í skattaskjólum.
Þann 25.Janúar 2016 keypti síðan félag í eigu bræðranna 46 prósent hlut BG12 ehf., félags í eigu Arion banka, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Gildi lífeyrissjóðs, fleiri minni lífeyrissjóða og fagfjárfesta, til bræðranna fyrir 147 milljónir punda.
Það þýddi að áætlað heildarverðmæti félagsins nam um 320 milljónum punda, eða um 60 milljarðar íslenskra króna á þáverandi gengi.
Félagið var svo skráð á markað í Bretlandi í fyrra, og nam þá verðmiðinn meira en þreföldu kaupverði af BG12 ehf., eða rúmlega einum milljarði Punda, jafnvirði 143 milljarða króna. Markaðsvirði félagsins er nú 1,22 milljarðar punda, eða sem nemur tæplega 175 milljörðum króna.
Ágúst Guðmundsson er forstjóri félagsins, en Simon Burke er stjórnarformaður þess. Lýður Guðmundsson á sæti í stjórn félagsins.