Eygló Harðardóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins og félags- og húsnæðismálaráðherra 2013-2016, hefur verið skipuð stjórnarformaður Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) af Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Teitur Björn Einarsson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er einnig á meðal þeirra sem skipaðir voru nýir í stjórnina. Hann er tilnefndur af Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra. Teitur var aðstoðarmaður Bjarna áður en hann var kjörinn á þing haustið 2016. Hann féll svo af þingi í kosningunum sem fram fóru ári síðar.
Auk þeirra voru Lárus Sigurður Lárusson lögmaður Sigrún Elsa Smáradóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, skipuð ný í stjórn LÍN. Fyrir í stjórninni eru Ragnar Auðun Árnason, Jóhann Gunnar Þórarinsson, Rebekka Rún Jóhannesdóttir og Hildur Björgvinsdóttir.
Lilja segir að eitt af áherslumálum hennar sem mennta- og menningarmálaráðherra verði að bæta kjör námsmanna og að ráðast í endurskoðun á námslánakerfinu. „Ég vil að sú vinna fari fram í samstarfi við námsmannahreyfingarnar þar sem lögð verður áhersla á jafnrétti til náms, skilvirkni og námsstyrkjakerfi að norrænni fyrirmynd.“
Hlutverk stjórnar sjóðsins er meðal annars að veita námslán, innheimta námslán, annast gagnasöfnun varðandi þörf námsmanna á námslánum, og annast fjármál sjóðsins og gerð fjárhagsáætlana. Stjórnin setur úthlutunarreglur sem eru lagðar fram til kynningar og staðfestar af ráðherra eigi síðar en 1. apríl ár hvert.