Endurskoðendurnir Stefán Svavarsson og Jón Þ. Hilmarsson segja að eigið fé íslensku bankanna hafi verið ofmetið um að minnsta kosti 50 prósent í lok árs 2007, og að rótin að því að þeir féllu eins og spilaborg, haustið 2008, hafi að mestu verið heimatilbúin.
Kolólöleg fjármögnun þeirra á eigin hlutafé, og hvernig hún var færð til bókar, er þar stærsti áhrifaþátturinn.
Þetta kemur fram í grein sem þeir skrifa á vef Viðskiptablaðsins sem ber heitið Eigið fé úr engu.
Í greininni segja þeir meðal annars: „Í umræðu um hrunið á umliðnum árum hefur því verið haldið á lofti að hrunið á Íslandi hafi aðallega átt rót að rekja til atburða erlendis. Sú skoðun orkar mjög tvímælis, því gild rök styðja, eins og hér verður reynt að gera grein fyrir, að hrunið hafi fyrst og fremst verið af innlendum uppruna og eru umfangsmikil kaup á eigin bréfum stór hluti skýringarinnar. Það hefði haft geipilega mikil og jákvæð áhrif fyrir marga notendur reikningsskila bankanna ef hin fjárhagslega frásögn af stöðu bankanna í árslok 2007 hefði verið þokkalega rétt varðandi eigin bréf, meira hefði trúlega ekki þurft til. Það er auðvitað hægt að halda því fram að þetta sé eftiráspeki en það er langt í frá svo. Í október 2007 lá fyrir að verulega var farið að hallast á til hins verra. Öllum sem að gerð reikningsskila bankanna komu mátti vera ljóst að gjaldþrot var þá þegar orðið eða yfirvofandi. Ekki þurfti annað til en farið hefði verið að gildandi lögum og reikningsskilareglum varðandi eigin bréf þá hlaut sú hætta að blasa við. Rétt bókhaldsleg meðferð eigin bréfa ein og sér hefði sagt þessa sögu og hefði dugað flestum til að forðast viðskipti við íslensku bankana.“
Í grein þeirra segir að eigið fé bankanna hafi verið oftalið eða rangfært um 230 milljarða kr. í árslok 2007 „en þessi fjárhæð, sem fengin er frá RNA, er trúlega of lág. Samkvæmt þessu þurfti að leiðrétta oftalið eigið fé bankanna um allt að 50% til lækkunar og það munar um minna,“ segir enn fremur.
Þeir segja enn fremur, að þessi framsetning á reikningum bankanna hafi ekki verið litin alvarlegum augum á Íslandi. „Það er líka sameiginlegt í þeim málum, þar sem til hagræðingar bókhalds hefur verið gripið, að slíku er ekki aðeins beitt á einum stað heldur er allt bókhaldið meira og minna undirlagt. Það gerðist í Enron málinu, Pharmalat málinu, Hafskipsmálinu, Worldcom málinu, BCCI málinu, Mattel málinu og svo sýnist ennfremur eiga við í tilviki íslensku bankanna 2007 en hér aðeins fjallað um einn þátt þess máls. Munurinn er þó sá að erlendis hefur verið tekið alvarlega á slíkum brotum en það á síður við hérlendis.
Lesa má greinina í heild sinni hér.