Ár hvert skipuleggja samtökin AIESEC svokallaða Framadaga. Megintilgangur þeirra er að gefa ungu fólki á tækifæri til þess að komast í kynni við Íslenskt atvinnulíf og önnur fjölbreytt tækifæri víðs vegar um heiminn.
Framadagar ársins 2018 fara fram í Háskólanum í Reykjavík milli klukkan 10 og 15 næstkomandi fimmtudag, 8. febrúar. Alls taka 85 fyrirtæki og stofnanir þátt og kynna starfsemi sína. Kjarninn verður á meðal þeirra fyrirtækja sem verða með bás í ár. Það er í fyrsta sinn sem fjölmiðillinn tekur þátt í viðburðinum.
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, segir að mikil spenna sé fyrir því. „Framadagar gefa okkur tækifæri til að kynna okkar starfsemi fyrir háskólanemendum sem eru að ákveða hvað þeir ætli að verða þegar þeir verða stórir. Vonandi verður sú þátttaka til þess að auka áhuga þeirra á því að starfa sem fjölmiðlafólk og aldrei að vita nema að framtíðarstarfsfólk okkar leynist á meðal þeirra sem sækja viðburðinn.“
Víkka tengslaneti og fá innsýn á íslenskan atvinnumarkað
Á heimasíðu Framadaga er haft eftir teyminu sem stendur á bak við viðburðinn að það hafi verið lærdómsríkt að undirbúa Framadaga 2018. „Við vorum ákveðin í því alveg frá upphafi að við vildum leggja sérstaka áherslu á að styrkja samband atvinnulífs og ungs fólks á Íslandi enn betur. Áherslan þetta árið er því á fagleg samskipti þar á milli en einnig vildum við ýta undir fjölbreytileika. Þau fyrirtæki og stofnanir sem taka þátt þetta árið endurspegla alls kyns starfsgreinar svo hægt er að komast til móts við breiðari hóp fólks sem er að feta sig áfram i atvinnulífinu.
Sandra Ósk Jóhannsdóttir, verkefnastjóri bætir við að „Ferlið hefur verið lærdómsríkt fyrir okkur öll. Við t.d breyttum og betrumbættum verkferla til þess að ganga úr skugga um að varðveita virði Framadaga og tryggja áfram að viðburðurinn bjóði upp á fjölbreytt tækifæri fyrir ungt fólk til að víkka tengslanetið og fá góða innsýn í íslenskt atvinnulíf.“
Framadagateymið samanstendur af Söndru Ósk Jóhannsdóttur verkefnastjóra, Katrínu Ástu Jóhannsdóttur vefstjórnanda, Ísey Dísu Havarsdóttur,Johönnu Wium Pálmarsdóttur og Lenu-Alessu Fiedler, sem sjá um fyrirtækjatengsl. Teymið vinnur náið með Danilo Nava, forseta AIESEC, og Nicole Buot Navarro fjármálastjóra AIESEC á Íslandi.