Um nýliðin áramót tók gildi ný lög í Færeyjum sem gera það að verkum að erlendu eignarhaldi á sjávarútvegsfyrirtækjum þar í landi verður úthýst. Samhliða verður kvótakerfið sem þar hefur verið við lýði tekið upp og uppboðsleið innleidd.
Þessar breytingar munu hafa bein áhrif á eitt íslenskt fyrirtæki, sjávarútvegsrisann Samherja, sem á útgerðarfyrirtækið Framherja í Færeyjum, sem það stofnaði árið 1994 Framherji gerir út þrjá togara í Færeyjum. Samherji hefur nú sjö ár til að losa sig út úr færeysku útgerðinni.
Frá þessu er greint í Fiskifréttum.
Víðtækasti fríverslunarsamningurinn
Í umfjöllun Fiskifrétta segir að breytingin á rétti erlendra aðila til að eiga í færeyskum útgerðum geri það að verkum að endurskoða þarf fríverslunarsamning Íslendinga og Færeyinga, Høyvíkursamninginn, sem gerður var árið 2005. Samkvæmt þeim samningi er litið á Ísland og Færeyjar sem eitt efnahagssvæði, og er þetta víðtækasti fríverslunarsamningur sem Íslendingar hafa gert við annað ríki, að undanskildum samningum við Evrópusambandið um Evrópska efnahagssvæðið.
Þurfa mögulega að segja upp samningnum
Í blaðinu segir að ef Íslendingar fáist ekki til að endurskoða samninginn þá þurfi Færeyingar annað hvort að segja honum upp eða breyta fiskveiðistjórnunarlögum sínum aftur þannig að hætt yrði við að koma Íslendingum út úr færeyskri útgerð.
Í athugasemdum sem Gísli Baldur Garðarsson, lögmaður Samherja, sendi færeyska þinginu 19. júní í fyrra sagði hann lítinn vafa á að lagabreytingarnar brytu í bága við fríverslunarsamninginn. „Hugsanlega er færeyska ríkisstjórnin með frumvarpi þessu að boða uppsögn samningsins við Ísland,“ skrifaði Gísli Baldur.
Högnuðust um 86 milljarða á sex árum
Samherji er stærsta útgerðarfyrritæki landsins. Á árunum 2011 til og með 2016 hefur fyrirtækið hagnast um 86 milljarða króna. Hagnaðurinn árið 2016 var 14,3 milljarðar króna.
Tekjur Samherja, sem er samstæða félaga sem flest starfa á sviði sjávarútvegs, hérlendis sem erlendis, námu þá um 85 milljörðum króna og var hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði um 17 milljarðar króna.