Einar Hannesson lögmaður hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra. Samkvæmt tilkynningu frá ráðuneytinu mun Einar hefja störf á næstu vikum og starfa með Laufeyju Rún Ketilsdóttur sem hefur verið aðstoðarmaður ráðherra undanfarið eitt ár.
Alls eru ellefu ráðherrar í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra. Hver og einn þeirra má vera með tvo aðstoðarmenn auk þess sem heimild er til staðar samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar að ráða þrjá til viðbótar ef þörf krefur.
Einn þeirra er sérstakur upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar sem starfar innan forsætisráðuneytisins. Þá gegnir Unnur Brá Konráðsdóttir stöðu aðstoðarmanns ríkisstjórnarinnar í starfi sínu sem verkastjóri stjórnarskrárendurskoðunar. Ekki þarf að auglýsa aðstoðarmanna stöður heldur eru þeir sem sinna þeim störfum valdir af hverjum ráðherra fyrir sig, enda oftast um að ræða nánustu samstarfsmenn ráðherra á meðan að hann gegnir embætti.
Aðstoðarmenn ráðherra fengu umtalsverða launahækkun sumarið 2016, þegar laun skrifstofustjóra í ráðuneytum voru hækkuð um allt að 35 prósent.
Laun aðstoðarmanna miðast við laun skrifstofustjóranna. Eftir þá hækkun eru laun aðstoðarmanna um 1,2 milljónir króna á mánuði. Aðstoðarmenn ráðherra eru með Einari 22 talsins, að með töldum upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar. Enn er svigrúm til að ráða allt að þrjá aðstoðarmenn til viðbótar.
Samkvæmt tilkynningu dómsmálaráðuneytisins lauk Einar embættisprófi í lögfræði árið 1998 og öðlaðist héraðsdómslögmannsréttindi árið 2000 en hann er einnig löggiltur fasteignasali. Þá aflaði hann sér framhaldsmenntunar í hagfræði og reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar við Harvard háskóla árið 2003 og í enskum sjó- og viðskiptarétti við Lloyd´s Maritime Academy 2008 og við London Metropolitan University 2011-2013 með sérstakri áherslu á enskan sjótryggingarétt og siglingar á heimskautaslóðum. Á meðan Einar stundaði laganám var hann við námsvist í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og sat í stjórn Heimdallar árin 1998-1999.
Einar starfaði sem lögfræðingur í samgönguráðuneytinu árin 1998-2002 og hafði umsjón með fjarskiptamálum og stefnumótun. Árið 2002 hóf hann störf sem erindreki Íslands gagnvart Evrópusambandinu á sviði fjarskipta-, samgöngu- og ferðamála. Á árunum 2003-2010 var Einar lögfræðingur hjá Eftirlitsstofnun EFTA þar sem hann hafði umsjón með innleiðingareftirliti EES löggjafar á sviði fjarskipta-, póst-, sjónvarps- og upplýsingasamfélagsþjónustu, samgangna og almannavarna auk tilskipunar um rafræn viðskipti í Noregi, Íslandi og Liechtenstein. Ábyrgð hans færðist yfir á svið samgöngulöggjafar að undanskildum flugmálum í þessum löndum árið 2005 auk almannavarna.