Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari og áður sérstakur saksóknari, segir að mál er snerta endurskoðun á reikningum hina föllnu banka, Glitnis, Landsbankans og Kaupþings, hafi verið skoðuð ofan í kjölinn og að lokum ákveðið að ákæra ekki vegna þeirra þátta.
Eins og greint var frá á vef RÚV á dögunum, þá er rannsókn á hrunmálum nú lokið, og á aðeins eftir að ljúka meðferð mála sem nú eru til meðferðar í dómskerfinu. Nú, tæplega áratug eftir hrunið, hefur ekki verið höfðað eitt einasta dómsmál vegna rangra ársreikninga bankanna. „Ársreikningar bankanna og endurskoðun þeirra komu til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara og naut embættið við þá rannsókn aðstoðar bæði innlendra og erlenda sérfræðinga. Rannsóknirnar leiddu hins vegar ekki til ákæru þar sem ákærandi taldi það sem fram var komið við rannsóknarnar ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis. Þess ber þó að geta að í svokölluðu Milestone máli voru endurskoðendur sakfelldir,“ segir Ólafur Þór í svari við fyrirspurn Kjarnans.
Tveir af þeim sem veittu sérstökum saksóknara ráðgjöf við rannsókn á þætti endurskoðenda og framsetningu ársreikninga, Stefán Svavarsson og Jón Þ. Hilmarsson, segja í grein sem þeir birtu á vef Viðskiptablaðsins á dögunum, að ársreikningar bankanna á árinu 2007 hafi gefið kolranga mynd af stöðu þeirra, og að eigið fé þeirra hafi verið ranglega metið um að minnsta kosti 50 prósent.
Meginástæða þess, samkvæmt Stefáni og Jóni, var sú að fjármögnun bankanna á eigin hlutafé var ranglega eignfærð í reikningum. Bera þeir meðal annars saman evrópskar og bandarískar reglur, þegar kemur að endurskoðun reikninga banka, og segja íslensku bankanna ekki hafa lagt spilin rétt á borðið, þegar kom að fyrrnefndum þáttum. Þetta hafi valdið miklu tjóni fyrir markaðinn, þar sem fjárfestar hafi fengið rétt mynd af stöðu mála.
Er það mat þeirra, að hrun bankanna haustið 2008 - þegar þeir féllu eins og spilaborg á þremur dögum 7. til 9. október - hafi ekki síst verið vegna þessa þáttar, þar sem styrkur þeirra hefði verið miklu minni en opinberir reikningar gáfu til kynna.
PWC var endurskoðandi Glitnis og Landsbankans en KPMG sáu um endurskoðun á reikningum Kaupþings.
Í greininni segja þeir meðal annars: „Það kemur fram í ágætri umfjöllun í skýrslu Rannsóknarnefndar alþingis (RNA) að í árslok 2007 hafi 230 milljarðar kr. af lánum til kaupa á hlutabréfum í bönkunum sjálfum verið færð í efnahagsreikningum undir safnheitinu útlán. Nefndin tekur ekki skýra afstöðu til þess hvort flokkun lánanna meðal útlána hafi verið réttmæt en nefndinni virðist það hafa verið nokkurt álitaefni og kallar þannig fengið eigið fé veikt; nýtt hugtak og hvorki þekkt úr heimi reikningsskilafræða né fjármálafræða í þessum skilningi. Og þá kemur ekki til greina að eiginfjárframlög séu af mismunandi styrkleika með hliðsjón af almennum fyrirmælum um innborgun hlutafjár samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga og þegar af þeirri ástæðu er ekki hægt að fallast á að hugtakið veikt eigið fé eigi sér tilverurétt eins og RNA notar það. Þessi framsetning í reikningsskilum samrýmist alls ekki reikningshaldsreglum og lögum. Hér verður einnig að líta til 104. gr. laga um hlutafélög um bann við lánveitingu til hluthafa til að fjármagna kaup á hlutum í félaginu með þeim undantekningum sem þar greinir. Kaup bankanna á eigin bréfum voru komin vel upp fyrir 40% að mati RNA og er ástæða til að ætla að ekki sé vanmetið nema síður væri. Ákvæði 55. gr. laga um hlutafélög mælir fyrir um að 10% hlutfall sé almennt hámark kaupa á eigin bréfum. Burtséð frá lagaákvæðinu þá er almennt ekki hyggilegt að lækka eigið fé með kaupum á eigin bréfum við þröngan fjárhag og alls ekki að segja ranglega frá þeirri staðreynd í reikningsskilum hlutafélags á markaði,“ segir í greininni, sem ber heitið, Eigið fé úr engu.