Nichole Leigh Mosty, fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar, segir að mörg dæmi séu um að komið sé fram við erlendar konur sem annars flokks borgara. Hún hafi til að mynda upplifað það þegar hún sat á Alþingi. „Berið saman hvernig var komið fram við mig og Pawel [Bartoszek]. Ég er alveg viss um að hann hefur ekki fengið sent á sitt Facebook: Farðu heim hóra! Við viljum ekkert við þig gera á okkar þjóðþingi.“ Nichole segir að þessum skilaboðum hafi verið beint til hennar bæði sem konu og sem útlendingi, en hún og Pawel voru tveir fyrstu innflytjendurnir til að verða kosnir sem þingmenn í kosningunum 2016. Þau náðu hvorug endurkjöri haustið 2017.
Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali við Nichole í sjónvarpsþætti Kjarnans sem var á dagskrá Hringbrautar í gær. Hægt er að horfa á stiklu úr þættingu í vafranum hér að ofan.
Konur af erlendum uppruna sem búa á Íslandi stigu fram í lok janúar undir merkjum #metoo-byltingarinnar. Þar lýstu þær kynferðisofbeldi, fordómum, mismunun, markvissu niðurbroti, vanrækslu, útilokun og misnotkun í á fjórða tug átakanlegra frásagna.
Þessi hópur kvenna sker sig úr öðrum hópum sem hafa stigið fram undir formerkjum #metoo vegna þess að það staða þeirra til að sækja hjálp og öðlast betra líf er verri en margra annarra.
Í þættinum segir Nichole það vanti breytta nálgun gagnvart konum að erlendum uppruna á mörgum sviðum. Það þurfi að breyta kerfislegum þáttum eins og upplýsingagjöf en líka hugsunarhætti. Íslendingar þurfi að opna sig meira gagnvart útlendingum.