Stjórn Marel leggur til að hluthafar fái greiddan arð fyrir rekstrarárið 2017 sem nemur 4,19 evru sentum á hlut sem nemur um 30% af hagnaði rekstrarársins 2017 miðað við útistandandi hluti í árslok. Jafnframt hefur stjórn Marel veitt stjórnendum félagsins heimild til að kaupa eigin bréf félagsins fyrir allt að nafnvirði 20 milljón hluta, að því er segir í tilkynningu frá félaginu til kauphallar.
Óhætt er að segja að árið 2017, þegar Marel fagnaði 25 fimm ára afmæli sem skráð félag, hafi verið gott, en félagið hagnaðist um 97 milljónir evra í fyrra, eða sem nemur um 12,1 milljarði króna. Arðgreiðslan nemur um 3,6 milljörðum króna.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri félagsins, fagnar góðu gengi í yfirlýsingu. „Fjórði árshluti var góður endir á sterku rekstrarári. Pantanir hækkuðu um 13% á milli ára og námu 1.144 millljónum evra yfir árið. Okkar starf snýr að því að umbylta matvælaframleiðslu. Síðustu ár hefur Marel einnig tekið miklum framförum. Við höfum forgangsraðað fjárfestingum og bætt ferla til að tryggja viðskiptavinum okkar hágæða heildarlausnir á réttum tíma,“ segir Árni Oddur.
Til að mæta miklum vexti í pöntum hefur félagið fjölgað fólki, en 5.400 starfsmenn eru nú hjá félaginu á heimsvísu, og starfsstöðvarnar í 30 löndum. „Samhentu starfsfólki okkar tókst að skila 295 milljónum evra í tekjur á fjórða ársfjórðungi 2017, sem er nýtt met og aukning um 18% miðað við sama tímabil í fyrra. Pantanir og tekjur hafa vaxið hraðar en rekstrarkostnaður sem skilar félaginu góðri rekstrarniðurstöðu. Heildartekjur Marel árið 2017 námu yfir einum milljarði evra og 15% í EBIT. Í ljósi góðrar rekstrarniðurstöðu og sterkrar pantanabókar, gerir félagið ráð fyrir góðum innri vexti árið 2018. Nýsköpun og markaðssókn styður við áframhaldandi innri vöxt og verðmætasköpun. Félagið hyggst vaxa enn frekar með yfirtökum og öflugu samstarfi við leiðandi framleiðslu- og tæknifyrirtæki. Í samvinnu við viðskiptavini erum við að umbylta matvælavinnslu á heimsvísu.“
Marel, sem er nú metið á 236 milljarða króna, stefnir að tólf prósent meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum, eins og segir í tilkynningu frá félaginu.