„Það eru engir brúnir krakkar á KrakkaRÚV,“ sagði sonur Nichole Leigh Mosty, fyrrverandi þingmanns og verkefnastjóra hjá þjónustumiðstöð Breiðholts, við hana í morgun. Hann sagði að mamma hans yrði að tala við RÚV, enda sé veruleiki hans, sem á vini frá Nepal, Filippseyjum, Senegal og fleiri löndum, allt annar en sá en birtist honum á KrakkaRÚV. „Ef hann er að fatta þetta þá þurfum við bókstaflega að hugsa inn á við og segja: „við þurfum að gera eitthvað í þessu.“
Þetta kemur fram í viðtali við Nichole í fyrsta sjónvarpsþætti Kjarnans á árinu, sem sýndur verður á Hringbraut í kvöld klukkan 21. Brot úr viðtalinu má sjá í spilaranum hér að ofan.
Þar verða til umræðu þær miklu samfélagsbreytingar sem orðið hafa á Íslandi á undanförnum árum vegna fjölgunar erlendra ríkisborgara sem sest hafa hér að. Nichole ræðir einnig ítarlega #Metoo-frásagnir kvenna af erlendum uppruna og af hverju sá hópur sker sig frá öðrum sem hefur stigið fram með frásagnir undir hatti sömu byltingar.
78 prósent af mannfjöldafjölgun á landinu á síðasta ári var vegna fjölgunar útlendinga sem hingað fluttu. Þeim hefur fjölgað um 81 prósent frá 2011 og eru nú tæplega 38 þúsund talsins. Það búa því um þrjú þúsund fleiri erlendir ríkisborgarar á Íslandi en búa alls í Kópavogi. Og mannfjöldaspár gera ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram næstu árin. Spá Hagstofu Íslands reiknar með að fjölgun erlendra ríkisborgara á Íslandi verði 77-111 prósent á tímabilinu 2017-2022.
Gestur þáttarins, auk Nichole, er Edda Ólafsdóttir, félagsráðgjafi og verkefnisstjóri á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Hún ræðir hvernig Reykjavíkurborg hefur tekist á við þá miklu fjölgun komufólks sem sest hefur að í borginni á undanförnum árum og þær áskoranir sem slíkum samfélagsbreytingum fylgja. „Þetta eru áskoranir á mjög mörgum sviðum. Við erum búin að taka lítil skref en nú eru kosningar í vor og ég vona að þessi málaflokkur fái aukið vægi þar og það verði rætt svolítið um hvernig sveitarfélagið ætlar að bregðast við þessari nýju stöðu.“