Virði hlutabréfa í Marel hækkaði um tíu prósent í fyrstu viðskiptum í morgun. Gengi bréfa félagsins hefur rokið upp úr 341 krónum á hlut í 375 krónur á hlut í alls 370 milljóna króna viðskiptum. Þetta þýddi að klukkan korter í tíu í morgun var markaðsvirði Marel orðið 260 milljarðar króna og hafði aukist um 26 milljarða króna á innan við klukkutíma. Marel er langverðmætasta félagið í íslensku kauphöllinni.
Þegar þessi frétt er skrifuð nemur hækkunin 8,5 prósentum í alls 482 milljóna króna viðskiptum.
Ástæðan er einföld: Marel birti uppgjör sitt vegna ársins 2017 í gær. Þar kom fram að hagnaður þess hafi verið 12,1 milljarðar króna á síðasta ári og að til standi að greiða hluthöfum 3,6 milljarða króna í arð.
Í tilkynningu sem Marel sendi frá sér til Kauphallar í gær kom auk þess fram að félagið ætli sér að kanna þann möguleika að skrá bréf félagsins í kauphöll erlendis.
Stærsti eigandi Marel eru Eyrir Invest með 25,88 prósent eignarhlut. Þar á eftir koma þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins, Lífeyrissjóður verslunarmanna, LSR og Gildi með samtals 21,51 prósent eignarhlut. Félagið á auk þess 5,68 prósent í sjálfu sér.