Nýtt skipurit hefur verið innleitt hjá GAMMA Capital Management. Samkvæmt tilkynningu tekur það mið af örum vexti félagsins undanfarin ár og auknum umsvifum nýrra tekjusviða. Á meðal þeirra breytinga sem gerðar verða er að Gísli Hauksson, fyrrverandi forstjóri GAMMA og einn stofnenda fyrirtækisins, lætur af störfum sem stjórnarformaður og mun stýra erlendri starfsemi félagsins. Þetta er gert vegna þess að starfsmenn fjármálafyrirtækja geta ekki setið í stjórnum þeirra. Við stjórnarformennsku tekur Hlíf Sturludóttir. Aðrir nýir stjórnarmenn verða Sveinn Biering og Gunnar Sturluson.
GAMMA opnaði skrifstofu í London og New York árið 2015. Gísli mun einbeita sér að verkefnum þeirra þar sem GAMMA horfir til vaxandi umsvifa erlendis í fasteignaverkefnum, innviðafjárfestingum og aðkomu að lánasjóðum í samstarfi við þarlend fjármálafyrirtæki.
Í tilkynningu frá GAMMA segir að GAMMA ráðgjöf verði nú dótturfélag í stað þess að vera systurfélag. „Forstjóri GAMMA er sem áður Valdimar Ármann, nýr framkvæmdastjóri Ráðgjafar verður Þórður Ágúst Hlynsson og Gísli Hauksson stýrir erlendri starfsemi félagsins. Aðrir framkvæmdastjórar eru sem áður Agnar Tómas Möller framkvæmdastjóri sjóða, Ingvi Hrafn Óskarsson framkvæmdastjóri sérhæfðra fjárfestinga, Guðmundur Björnsson framkvæmdastjóri reksturs og áhættustýringar og Jónmundur Guðmarsson framkvæmdastjóri sölu og viðskiptaþróunar.“
Frá því að GAMMA var stofnað fyrir áratug síðan hefur vöxtur þess verið hraður og í lok síðasta árs var fyrirtækið með 137 milljarða króna í stýringu. Samkvæmt tilkynningunni var rekstrarhagnaður GAMMA árið 2017 sá næst besti í sögu fyrirtækisins.