Í nýrri skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar er fjallað um stöðu menntamála á Íslandi og þar dregið fram að Ísland sé eftirbátur annarra Norðurlanda þegar kemur að útkomu í PISA-prófum og í öllum fögum sem mæld eru, sé Ísland undir meðaltali OECD-ríkja. Engin bæting hefur verið í niðurstöðum frá árinu 2012, og má segja að Ísland sé á tossalista þegar kemur að þessum mælingum.
Þá er bent á þá staðreynd, að brottfall úr framhaldsskóla sé óvenjumikið hér á landi og meira en á hjá öðrum Norðurlöndum. Meðaltal brottfalls í Evrópu er ríflega 10 prósent en á Ísland er það tæplega 20 prósent.
Í Morgunblaðinu í dag, segir Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, að veruleikinn sé sá, að það taki langan tíma að ná árangri. „Á þetta hefur verið bent áður og aðgerðir stjórnvalda hafa beinst að þessum þáttum. Í hvítbók um umbætur í menntun voru sett markmið um að 90% grunnskólanema næðu lágmarksviðmiðum í lestri og að 60% nemenda lykju námi úr framhaldsskóla á tilsettum tíma. Það tekur bara tíma að ná árangri,“ segir Arnór.
Hann segir einnig að sláandi mikill munur sé á árangri nemenda sem eru innfæddir og síðan þeirra sem eru aðfluttir. „Það er mjög sláandi munur þarna á, sá mesti á Norðurlöndum. Þarna er brýnt að grípa til að- gerða. Mér skilst að innflytjendaráð sé að skoða þessi mál og greina fyrir stjórnvöld,“ segir Arnór í viðtali við Morgunblaðið.