Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í ræðu sinni á Viðskiptaþingi í dag að ríkið eigi ekki að eiga allt bankakerfið. Ríkisstjórnin vilji draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum „enda ekki skynsamlegt fyrir ríkið að bera meginábyrgð á öllum helstu fjármálastofnunum landsins,“ sagði Katrín.
Hún sagði lykilatriðið að skapa stöðugt og traust fjármálakerfi sem geti mætt til jafns þörfum heimila landsins og ekki síður fjölbreyttum þörfum atvinnulífsins.
Katrín sagði Íslendinga hafa farið illa að ráði sínu við uppbyggingu fjármálakerfisins við upphaf þessarar aldar. Vel hafi þó tekist að leysa úr þeim áskorunum sem fylgdu hruninu. Það hafi þó ekki verið án fórna, og það hafi verið almenningur sem færði stærstu fórnirnar. Hún sagði því mikilvægt að tryggja að endurreist fjámálakerfi kalli aldrei aftur á sömu fórnir og að almenningur fái að njóta þess árangurs sem endurreisn skili til ríkissjóðs.
Katrín vill að þeirri miklu vinnu sem staðið hefur yfir við endurskipulagningu fjármálakerfisins, sem nú búi við allt annað regluverk en það gerði fyrir tíu árum, verði lokið. Hún vill að tekin verði afstaða til lykilspurninga um viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi, gagnsæi eignarhalds og hæfi eigenda.
Kjarninn greindi frá því í gær að Kaupskil, félag í eigu Kaupþings þar sem vogunarsjóðir eru stærstu hluthafarnir, vilji virkja kauprétt sinn og kaupa þannig 13 prósenta hlut ríkisins í bankanum á 23 milljarða króna. Hægt er að lesa meira um það hér.