Kjarninn miðlar ehf., móðurfélag Kjarnans, hefur keypt allt hlutafé Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, í félaginu. Um er að ræða 6,25 prósent hlut.
Ágúst Ólafur keypti hlut í Kjarnanum árið 2014. Á þeim tíma var hann ekki þátttakandi í stjórnmálum. Hann sat enn fremur í stjórn miðilsins um tíma. Í september 2017 tilkynnti Ágúst Ólafur að hann ætlaði að hefja stjórnmálaþátttöku að nýju og vék hann samstundis úr stjórn Kjarnans, enda var það mat stjórnenda Kjarnans, Ágústs Ólafs og annarra hluthafa að ekki færi saman að vera kjörinn fulltrúi og eiga hlut í fjölmiðli. Samhliða var gert samkomulag um að Ágúst Ólafur yrði með öllu óvirkur eigandi í félaginu og að hlutur hans yrði settur í söluferli. Greint var frá þessu opinberlega á sínum tíma.
Nú er því ferli lokið með ofangreindri niðurstöðu. Þá hefur Fanney Birna Jónsdóttir, aðstoðarritstjóri Kjarnans, bæst í hluthafahópinn.
Í fjölmiðlum hefur verið fjallað um að hlutur Ágústs Ólafs Í Kjarnanum hafi aukist milli áranna 2017 og 2018. Það gerðist í kjölfar þess að hluthafalán, sem veitt var vegna fjárfestinga á fyrri hluta ársins 2017, var breytt í hlutafé í byrjun árs 2018. Því átti sú aðgerð sér stað töluvert áður en Ágúst Ólafur tilkynnti um þátttöku í stjórnmálum og náði kjöri sem þingmaður. Fjölmiðlanefnd hefur verið tilkynnt um breytingarnar líkt og lög gera ráð fyrir.
Eignarhald Kjarnans er eftirfarandi:
Hjalti Harðarson, 7,86%
Fanney Birna Jónsdóttir, 0,97%
Magnús Halldórsson, 11,71%
Þórður Snær Júlíusson, 10,36%
Birgir Þór Harðason, 2,46%
Jónas Reynir Gunnarsson, 2,46%
Kjarninn miðlar ehf., 6,25%
HG80 ehf., í eigu Hjálmars Gíslasonar, 18,28%
Miðeind ehf., í eigu Vilhjálms Þorsteinssonar, 17,80%
Birna Anna Björnsdóttir, 12,20%
Fagriskógur ehf., í eigu Stefáns Hrafnkelssonar, 4,83%
Milo ehf., í eigu Gumma Hafsteinssonar og Eddu Hafsteinsdóttur, 4,83%