Gengið verður frá sölu á 13 prósent hlut ríkisins í Arion banka í síðasta lagi 21. febrúar. Kaupin byggja á nýtingu kaupréttar sem settur var inn í samning milli íslenska ríkisins og kröfuhafa Kaupþings um fjármögnun Arion banka sem gert var í september 2009. Umræddur kaupréttur er einhliða og kaupverðið er fyrir fram ákveðið. Alls mun Kaupþing greiða 23,4 milljarða króna fyrir hlutinn og íslenska ríkið getur ekki sagt nei við því tilboði.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, staðfesti þetta í ræðustóli Alþingis fyrir viku síðan. Auk þess hafa aðrir viðmælendur Kjarnans, sem komið hafa að gerð samkomulaga sem gerð hafa verið við kröfuhafa Kaupþings, staðfest þennan skilning. Bjarni sagði í andsvari við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, að þegar „ ríkið lagði til fjármagn til að fjármagna stofnun Arion banka á sínum tíma á árinu 2009 var veittur kaupréttur að hlut ríkisins, þessum 13 prósent, án skilyrða á fyrirframákveðnu verði. Samkvæmt þeim kauprétti er það einhliða ákvörðun þeirra sem halda á kaupréttinum að leysa hlut ríkisins til sín. Gagnvart því þarf engan stuðning eða beiðni eða samþykki íslenska ríkisins.“
Undirbúningur fyrir skráningu á fullu
Salan verður lokahnykkur í því sem má kalla síðasta skrefið sem stigið verður í breytingum á eignarhaldi Arion banka fyrir skráningu bankans á markað, sem fyrirhuguð er á Íslandi og í Svíþjóð í apríl næstkomandi. Aðrar breytingar sem orðið hafa á undanförnum dögum eru þær að tveir núverandi eigenda, Attestor Capital og Goldman Sachs, og 24 sjóðir í stýringu fjögurra íslenskra sjóðsstýringarfyrirtækja, keyptu 5,34 prósent hlut í vikunni á 9,5 milljarða króna. Þá var greint frá því í morgun að Arion banki hefði keypt 9,5 prósent hlut í sjálfum sér á 17,1 milljarð króna. Á uppgjörsfundi með fjölmiðlamönnum, sem fram fór í dag, sagði Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, að hlutaféð yrði líklegast notað til þess að lækka hlutafé bankans. Ekki stæði til að selja það áfram.
Eins og staðan er í dag er eignarhaldið á Arion banka því svona: Kaupþing, í gegnum dótturfélag sitt Kaupskil, á 42,57 prósent hlut og er langstærsti eigandinn. Sá eignarhlutur mun aukast um 13 prósent þegar Kaupþing gengur frá kaupunum á eignarhlut ríkisins á næstu dögum. Taconic Capital, Och-Ziff Capital Management Group, sjóðir í stýringu Attestor Capital og Goldman Sachs, sem eiga líka ráðandi hlut í Kaupþingi, eiga samanlagt 32,4 prósent beinan eignarhlut í Arion banka. Bankinn sjálfur á svo 9,5 prósent hlut í sér. Þá eiga 24 sjóðir sem eru í stýringu Stefnis, Landsbréfa, Íslandssjóða og Júpíter samtals 2,54 prósent hlut.
Vilja fá fleiri til að taka þátt í útrás Valitor
Á fundinum í dag var einnig útskýrt hvað lægi á bak við þá hugsun að selja hlut í kortafyrirtækinu Valitor, sem er að fullu í eigu Arion banka. Við þá sölu yrði Valitor hlutdeildarfélag en ekki dótturfélag og færi þar með út úr samstæðureikningi Arion banka. Í ljósi þess að Valitor er með stærstan hluta umsvifa sinna erlendis, og hefur verið í örum vexti alþjóðlega með uppkaupum á erlendum fyrirtækjum fyrir milljarða króna, vill bankinn fá fleiri með til að leiða þann erlenda vöxt. Núverandi hluthafar Arion banka, erlendir sjóðir, hafa sýnt því áhuga og því hefur komið upp sú hugmynd að Valitor verði aðgreint frá bankanum og að hlutabréf í fyrirtækinu verði að hluta greidd út í formi arðs til hluthafa. Höskuldur sagði að ef að því yrði myndi Arion banki alltaf halda eftir að minnsta kosti 20 prósent hlut. Hann undirstrikaði þó einnig að engin ákvörðun hafi verið tekin og að skiptar skoðanir hafi verið um þessa aðgerð. Fulltrúi Bankasýslu ríkisins í stjórn bankans hafi til að mynda lagst gegn því, líkt og greint hefur verið frá í fjölmiðlum.
Með því að kaupa hlut ríkisins í Arion banka, líkt og nú stendur til, þá munu stærstu eigendur bankans hins vegar losna við það mótlæti.