Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segist, í viðtali við Morgunblaðinu, hafa hvatt til þess að hæfar konur fengju einnig að komast í viðtalshóp, vegna ráðningar forstjóra Borgunar, en Sæmdur Sæmundsson tók við því starfi á dögunum, eftir að Haukur Oddsson hætti.
„Ég hvatti stjórn Borgunar til
að taka viðtöl við kandídata af báðum kynjum. Þá var ég upplýst um
að það væru eingöngu karlar á leið
í viðtöl og ég vissi af því að það
hefðu mjög hæfar konur einnig
sótt um. Ég taldi það því ekki
skaða ferlið að það væri rætt við
fleiri hæfa einstaklinga. Í lokafasanum
í ráðningarferlinu var eingöngu
tekið viðtal við einn aðila en
þá lýsti ég þeirri skoðun minni að
það hefði átt að vera rætt við fleiri
aðila við svona stóra ákvörðun,“ segir Birna í samtali við Morgunblaðið í dag.
Í gær var greint frá því í Morgunblaðinu, að „gremja“ væri meðal hluthafa hjá Borgun vegna þess sem kallað var afskipti Birnu af því, hver yrði nýr forstjóri.
Íslandsbanki er stærsti hluthafi Borgunar, með 63,5 prósent hlut, en íslenska ríkið er eigandi Íslandsbanka. Formaður stjórnar Borgunar er Erlendur Magnússon, og er Íslandsbanki með þrjá stjórnarmenn af fimm. Aðrir í stjórn eru Björg Sigurðardóttir, Halldór Kristjánsson, Óskar Veturliði Sigurðsson og Sigrún Helga Jóhannsdóttir.
Í Morgunblaðinu í gær sagði að þegar hafi verið ákveðið að óska ekki eftir kröftum tveggja stjórnarmanna, á aðalfundi í mars, þeim Erlendi stjórnarformanni og Sigrúnu Helgu.
Birna segir að ekki sé óeðlilegt að gera breytingar á stjórninni, en í tilfelli Sigrúnar Helgu þurfti að gera breytingar vegna starfa hennar á öðrum vettvangi. Aðalfundur Borgunar fer fram í mars.
Meðeigendur Íslandsbanka að Borgun eru Eignarhaldsfélagið Borgun slf., sem á rúmlega 32 prósent hlut, og BPS ehf. sem á tvö prósent.
Birna ítrekar enn fremur að Sæmundur njóti fyllsta traust Íslandsbanka í störfum sínum.