Fríblaðið Mannlíf kom inn um bréfalúgur íbúa höfuðborgarsvæðisins í fimmta sinn í morgun. Blaðinu er dreift frítt í 80 þúsund eintökum. Um er að ræða samstarfsverkefni útgáfufélagsins Birtings og Kjarnans miðla.
Ritstjórn Kjarnans sér um vinnslu frétta, fréttaskýringa, úttekta, skoðanagreina og fréttatengdra viðtala á meðan að ritstjórnir Gestgjafans, Hús og híbýla og Vikunnar vinna áhugavert og skemmtilegt efni inn í aftari hluta blaðsins.
Í Mannlífi er lagt mikið upp úr gæðum efnis úr mörgum áttum og eru efnistök því afar fjölbreytt. Í blaðinu er að finna lífstílstengt efni um heimili, hönnun, ferðalög, mat og drykk í bland við vandaðar fréttaskýringar og viðtöl við áhugavert fólk.
Á meðal efnistaka í blaði dagsins er ítarlegt viðtal við Sigríði Dögg Arnardóttur kynfræðing. Hún hefur áralanga reynslu af því að halda kynfræðslufyrirlestra fyrir unglinga og foreldra og kennir jafnframt áfangann Almenn kynjafræði í Háskólanum í Reykjavík. Hún segir meðal annars í viðtalinu að nauðsynlegt sé að ræða um blæðingar kvenna en samkvæmt könnunum skammast margar konur sín fyrir að vera á blæðingum og segjast fela túrtappa, dömubindi eða aðrar hreinlætisvörur þegar þær fara á salernið í mannmergð.
Einnig má finna í blaðinu fréttaskýringar um hvernig konum er haldið frá peningum á Íslandi, smálán og breyttar áherslur hjá unglingum varðandi bílpróf. Þá skrifar Eiríkur Ragnarsson um hvernig strætó sé bjargvættur bílsins.