Hagnaður Landsbankans hf. á árinu 2017 nam 19,8 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 16,6 milljarða króna á árinu 2016.
Hagnaður Íslandsbanka nam 13,2 milljörðum, og því er samanlagður hagnaður ríkisbankanna 33 milljarðar króna, eða sem nemur tæplega 95 þúsund krónum á hvern íbúa landsins.
Landsbankinn er rúmlega 98 prósent í eigu ríkisins en Íslandsbanki er 100 prósent í eigu ríkisins.
Landsbankinn tilkynnti um uppgjör sitt í gær, en áður höfðu bæði Íslandsbanki og Arion banki tilkynnt um sín uppgjör.
Arion banki hagnaðist um 14,4 milljarða í fyrra, og er samanlagður hagnaður stóru bankanna því 47,4 milljarðar króna, sem er um 136 þúsund krónur á hvern íbúa landsins.
Arðsemi eigin fjár Landsbankans eftir skatta var 8,2% á árinu 2017, samanborið við 6,6% árið 2016, að því er segir í tilkynningu.
Vöxtur í lánum umfram hagvöxt
Hreinar vaxtatekjur jukust um rúma 1,6 milljarða króna milli ára og námu 36,3 milljörðum króna árið 2017. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans hækkuðu um 8% á milli ára og námu 8,4 milljörðum króna. Tekjuaukning er einkum vegna aukinna umsvifa í markaðsviðskiptum og eignastýringu. Aðrar rekstrartekjur námu 7 milljörðum króna og hækkuðu um 7% á milli ára. Skýrist hækkunin einkum af jákvæðum gangvirðisbreytingum óskráðra hlutabréfa. Jákvæð virðisbreyting útlána nam 1,8 milljarði króna samanborið við neikvæða virðisbreytingu upp á 318 milljónir króna árið 2016, samkvæmt tilkynningu frá bankanum.
Heildareignir Landsbankans jukust um 81,7 milljarða króna á milli ára og námu í árslok 2017 alls 1.193 milljörðum króna. Til samanburðar námu heildareignir hins ríkisbankans 1.036 milljörðum króna.
Útlán jukust um 8,5% milli ára, eða um 72 milljarða króna, en það er töluvert umfram hagvöxt, samkvæmt bráðabirgðatölum um hann.
Í árslok 2017 voru innlán frá viðskiptavinum 605 milljarðar króna, samanborið við 590 milljarða króna í árslok 2016. „Eigið fé Landsbankans í árslok 2017 var 246,1 milljarður króna samanborið við 251,2 milljarða króna í árslok 2016. Á árinu 2017 greiddi Landsbankinn 24,8 milljarða króna í arð til hluthafa. Eiginfjárhlutfall Landsbankans í árslok 2017 var 26,7%, samanborið við 30,2% í árslok 2016. Fjármálaeftirlitið gerir 21,4% heildarkröfu um eiginfjárgrunn Landsbankans,“ að því er segir í tilkynningu frá bankanum.