Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur ákveðið að Sif Konráðsdóttir hætti sem aðstoðarmaður hans. Hún hættir störfum frá og með deginum í dag. Guðmundur þakkar henni samstarfið í tilkynningu og óskar henni alls hins besta.
Tilkynnt var um ráðningu Sifjar 14. desember síðastliðinn. Hún var því aðstoðarmaður ráðherra í rúma tvo mánuði.
Kjarninn birti viðtal við Ólöfu Rún Ásgeirsdóttur, þolanda í kynferðismáli, fyrir tveimur dögum. Þar greindi hún frá því að hún væri ósátt við traust ráðherrans á Sif. Ólöf hafi upplifað það sem sjálfstætt brot þegar Sif, þá réttargæslumaður hennar, hafi ekki greitt henni miskabætur sem henni voru dæmdar vegna kynferðisbrotsins. Ólöf þurfti að leita sér aðstoðar annars lögmanns til að innheimta bæturnar sem á endanum fengust greiddar. „Mér fannst hún með þessu gera svo lítið úr brotinu, þetta litla sem við fengum að geta ekki borgað okkur þetta strax. Ef ég myndi stela úr fyrirtækinu sem ég er að vinna hjá, en seint og síðar meir borga það til baka, þá fengi ég ekkert að halda vinnunni,“ sagði Ólöf í viðtalinu.