Björn Ingi Hrafnsson hefur ásamt viðskiptafélaga sínum, Arnari Ægissyni, kært forsvarsmenn Dalsins ehf., þá Árna Harðarson og Halldór Kristmannsson, og lögmann þeirra, Bjarka Diego, til héraðssaksóknara fyrir fjársvik, skilasvik og skjalabrot.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Í kærunni er því lýst „hvernig hinir kærðu hafi blekkt Björn Inga og Arnar til að undirrita samkomulag um riftun á kaupsamningi um alla hluti í Birtingi, undir því yfirskini að um málamyndagerning væri að ræða, en svo notað umrætt skjal til að yfirtaka kaupsamning um Birting og þann hlut, sem Pressan ehf. hafði þegar greitt fyrir, án endurgjalds með því að beita blekkingum og rangfærslu skjala, þrátt fyrir að gjaldþrot Pressunnar væri yfirvofandi og óumflýjanlegt“ eins og það er orðað í Fréttablaðinu.
Í umfjöllun sinni vitnar Fréttablaðið til kærunnar, og er því lýst hvernig sú hugmynd hafi vaknað hjá Árna Harðarsyni að gera málamyndasamkomulag um riftun á kaupsamningi um Birting sem geymt yrði á skrifstofu Bjarka Diego lögmanns.
Bjarki var sjálfur dæmdur í fangelsi tveggja og hálfs árs fangelsi í máli sem beindist að stjórnendum Kaupþings vegna markaðsmisnotkunar.
Í kærunni, sem Fréttablaðið fjallar um, er það sagt hafa verið gert í þeim eina tilgangi að sýna „kröfuhöfum Pressunnar fram á að Pressan ætti ekki þessa eign og semja yrði um skuldir,“ segir í Fréttablaðinu.
Í svari Árna Harðarsonar við tölvupósti Björns Inga, sem vitnað er til í Fréttablaðinu, þar sem riftunarskjalið er til umræðu, segir: „Eins og við ræddum áðan þá geymir Bjarki skjalið en við gætum þurft að sýna það ákveðnum aðilum og gerum það þá á skrifstofu BBA en við skulum ekki senda þetta á milli í meilum.“
Umræddur póstur var sendur 8. maí 2017. „Tíu dögum síðar var starfsmönnum Pressunnar tilkynnt að kaupin hefðu gengið til baka og þann 31. maí var tilkynnt á starfsmannafundi Birtings að Dalurinn væri orðinn eigandi Birtings að öllu leyti,“ segir í Fréttablaðinu.