„Dönsk stjórnvöld, norsk stjórnvöld, bresk stjórnvöld, bandarísk stjórnvöld tóku hagsmuni þjóðarinnar umfram hagsmuni vogunarsjóðanna og leystu til sín þá banka sem þeir þurftu að leysa til sín og fóru í þá vegferð að endurskipuleggja sitt kerfi, en hvað gerum við núna? Ég hef grun um að þetta sé þannig kæru þingmenn, að þetta hafi verið ískalt hagsmunamat Sjálfstæðisflokksins,“ sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokkformaður Miðflokksins og fyrirverandi utanríkisráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag, þar sem hann ræddi stefnu stjórnvalda er varðar söluna á hlut ríkisins í Arion banka.
Eins og greint hefur verið frá þá hefur Bankasýsla ríkisins lagt það til, að ríkið selji 13 prósent hlut sinn í Arion banka til Kaupskila. Kaupréttur sem Kaupskil hafa á hlut ríkisins miðast við ákvæði í hluthafasamkomulagi frá árinu 2009.
Í tillögu bankasýslunnar segir að í hluthafasamkomulagi frá 2009 hafi komið fram hvernig kaupréttarverðið skyldi reiknað út og voru forsendur að ríkissjóður skyldi ávaxta upphaflegt framlag sitt, sem þá var 10 milljarðar.
Niðurstaða bankasýslunnar sé að kaupréttarverðið sem Kaupskil hafi boðið, 23,4 milljarðar, sé því rétt útreiknað miðað við hluthafasamkomulagið, og að kauprétturinn sé fortakslaus og óumdeildur.
Með sölunni fer íslenska ríkið út úr hluthafahópi Arion banka, en undirbúningur fyrir skráningu bankans á markað er nú í fullum gangi. Lagt er upp með að hann verði skráður á markað síðar á árinu, og eignarhald bankans þannig endurskipulagt.
Ríkið er eigandi Íslandsbanka 100 prósent og Landsbankans rúmlega 98 prósent, svo eignir þess í bankakerfinu eru ennþá verulega miklar, í hlutfalli við rekstur ríkissjóðs. Samanlagt nemur eigið fé þessara tveggja banka rúmlega 427 milljörðum króna.
Gunnar Bragi sagði í ræðu sinni, að stjórnvöld væru að leggjast flöt fyrir vogunarsjóðunum, en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, hefur sagt að íslensk stjórnvöld séu nú búin að færa þræði í hendur vogunarsjóða og „missa stjórnina“ á atburðarásinni við endurskipulagningu fjármálakerfisins.