Heimildir Kjarnans herma að Hildur Björnsdóttir lögfræðingur muni verma 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum sem fram fara í maí.
Eyþór Arnalds vann sem kunnugt er leiðtogaprófkjör flokksins í lok janúar með yfirburðum. Þar lutu meðal annarra í lægra haldi þau Áslaug Friðriksdóttir og Kjartan Magnússon núverandi borgarfulltrúar sem munu ekki fá sæti á listanum, að minnsta kosti ekki nægilega ofarlega til að eiga möguleika á sæti í borgarstjórn.
Hildur starfaði sem lögmaður hjá lögmannstofunni Rétti og skrifaði um tíð bakþanka fyrir Fréttablaðið, en þar er á fleti tengdamóðir hennar, Kristín Þorsteinsdóttir ritstjóri blaðsins. Hún kom fram í þættinum Á uppleið sem Sindri Sindrason gerði fyrir Stöð 2 árið 2015. Hún er einnig BA í stjórnmálafræði.
Aðrir sem nefndir hafa verið sem eiga möguleika á sæti ofarlega á lista eru þau Valgerður Sigurðardóttir starfsmaður Kóða ehf., Egill Þór Jónsson félagsfræðingur og starfsmaður Reykjavíkurborgar. Þá mun Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi vera ofarlega á listanum og auk þess Katrín Atladóttir, starfsmaður CCP. Katrín var í 7. sæti á lista flokksins í Alþingiskosningunum í haust í Reykjavíkurkjördæmi suður.
Vala Pálsdóttir, formaður Landsambands sjálfstæðiskvenna, hefur verið nefnd ítrekað í þessu samhengi, jafnvel í öðru sætinu. Í samtali við Kjarnann í byrjun janúar sagðist Vala vera spennt fyrir borgarmálunum og hafi fengið áskoranir um að taka þátt í leiðtogaprófkjörinu. Heimildir Kjarnans herma að hún sé ekki á listanum, að minnsta ekki ofarlega.